logo-for-printing

08. mars 2010

Matsfyrirtækið Standard & Poor's staðfestir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs; áfram á gátlista með neikvæðum horfum

Matsfyrirtækið Standard & Poor's staðfestir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs; áfram á gátlista með neikvæðum horfum

Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s tilkynnti í dag óbreytt lánshæfismat ríkissjóðs í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samninginn. Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs, BBB-/A-3 fyrir erlendar skuldbindingar og BBB+/A-2 fyrir innlendar skuldbindingar verða áfram á gátlista með neikvæðum horfum.

Lausleg þýðing á fréttatilkynningu Standard & Poor‘s í dag fylgir hér á eftir : (Sjá upprunalega frétt á ensku hér: Standard & Poor's press release March 8 2010.pdf )

Höfnun íslenskra kjósenda á lögum um endurgreiðslu Icesave-skuldar í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur ekki umsvifalaus áhrif á lánshæfismat Ríkissjóðs Íslands.

Yfirlit

Íslenskir kjósendur höfnuðu kröftuglega lögum um endurgreiðslu til ríkisstjórna Hollands og Bretlands vegna greiðslu þeirra á innstæðutryggingu vegna hins fallna netbanka Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Höfnunin hefur ekki umsvifalaus áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs.

Við munum halda BBB-/A-3 lánshæfismati okkar fyrir erlendar skuldbindingar og BBB+/A-2 fyrir innlendar skuldbindingar á gátlista með neikvæðum horfum.

Við búumst við að taka ákvörðun um stöðu lánshæfismatsins á gátlista þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um aðgang að erlendu lánsfjármagni.

Lánshæfismat

Í tilkynningu frá matsfyrirtækinu Standard & Poor‘s hinn 8. mars, 2010, kom fram að fyrirtækið hefði í hyggju að halda BBB-/A-3 lánshæfiseinkunn sinni í erlendum langtíma- og skammtímaskuldbindingum og BBB+/A-2 lánshæfiseinkunn sinni í innlendum langtíma- og skammtímaskuldbindingum á gátlista, þangað sem þær voru færðar með neikvæðum horfum hinn 5. janúar 2010.

Rökstuðningur

Sú ákvörðun að halda lánshæfiseinkunnum á gátlista endurspeglar það mat okkar að kröftug höfnun íslenskra kjósenda á lagasetningu um endurgreiðslu til ríkisstjórna Hollands og Bretlands vegna hins fallna íslenska netbanka Icesave, hafi ekki umsvifalaus áhrif á lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands. Búist var við almennri höfnun laganna.

Stjórnvöld boðuðu til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forsetinn, Ólafur Grímsson, hafði synjað lögum um Icesave staðfestingar snemma árs 2010. Samningaviðræðum sem fylgdu í kjölfarið milli Reykjavíkur, Lundúna og Haag í þeim tilgangi að ná málamiðlun lauk án niðurstöðu. Að okkar mati er niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ekki ígildi þess að alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sé algjörlega hafnað heldur endurspeglar hún gríðarlega almenna óánægju með skilmála tvíhliða lánsins sem Bretar og Hollendingar buðu til að fjármagna kröfu sína.

Standard & Poor‘s munu greina hver áhrif þessarar stöðu verða á útgreiðslu fjármagns í tengslum við alþjóðlega lánsfjármögnun til handa Íslandi á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og norrænna ríkisstjórna í framtíðinni. Sú lánafyrirgreiðsla er ætluð til að aðstoða íslensk stjórnvöld við að afnema gjaldeyrishöftin sem sett voru á í kjölfar hruns bankakerfisins síðla árs 2008 og viðhalda trú fjárfesta á sjálfbærni ríkisfjármála.

Færa má rök fyrir því að útgreiðsla norrænu lánanna hafi verið tengd lausn Icesave-málsins, sem aftur hefur af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verið talin forsenda fyrir að tryggja nægilegt fjármagn til stuðnings efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Við álítum að atkvæðagreiðslan leiði til nýrra samningaviðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurhönnun efnahagsáætlunarinnar, í því skyni að draga úr hlut erlendrar fjármögnunar. Á sama tíma teljum við mögulegt að norrænu ríkisstjórnirnar eða aðrir alþjóðlegir samstarfsaðilar muni sýna sveigjanleika og veita lán, á meðan ríkisstjórn Íslands heldur áfram að semja við bresk og hollensk stjórnvöld um lausn Icesave-málsins í góðri trú. Við vekjum athygli á að Norðurlöndin veittu fyrsta hluta lánsins í desember 2009, jafnvel þótt Icesave-lögin hafi ekki verið komin í gegnum þingið eins og í fyrstu var gerð krafa um, heldur aðeins verið samþykkt af ríkisstjórninni. Við teljum að ákvarðanir um útgreiðslu lánsfjár í framhaldinu muni ákvarða hve sterk samningsstaða Íslands verður í samningaviðræðum við Bretland og Holland.

Líklegt er að samningaviðræður verði flóknari í nánustu framtíð vegna komandi kosninga bæði í Bretlandi og Hollandi, í kjölfar falls hollensku ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði. Við álítum þó að það séu hagsmunir allra þriggja ríkisstjórna að vinna áfram að lausn málsins.

Standard & Poor‘s hafa ekki trú á því að ríkisstjórn Íslands muni segja af sér vegna atkvæðagreiðslunnar eða að óleyst Icesave-deila muni hafa áhrif á nýhafnar aðildarviðræður við Evrópusambandið, sem á þessu stigi málsins hafa ekki áhrif á lánshæfismat.

Gátlisti

Ákvörðun um stöðu lánshæfismatsins á gátlista verður tekin fyrir lok apríl 2010. Á næstu vikum munum við fylgjast með viðræðum, annars vegar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og norrænar ríkisstjórnir, og hins vegar við bresk og hollensk stjórnvöld. Erfiðari staða í samningaviðræðunum eða verri aðstæður í viðkvæmu efnahagsjafnvægi Íslands gæti leitt til lækkunar lánshæfismats í „BB“ flokk. Hins vegar mun þróun í átt að Icesave-samkomulagi eða tryggt erlent lánsfé fyrir efnahagsáætlun Íslands leiða til þess að lánshæfiseinkunn nái jafnvægi í núverandi stöðu.

Til baka