logo-for-printing

06.01.2010

Moody's gefur út tilkynningu

Meðfylgjandi er lausleg þýðing á tilkynningu Moody's í dag:

Leið Íslands úr kreppunni torvelduð vegna synjunar forseta Íslands á Icesave-samningnum

Matsfyrirtækið Moody's Investors Service sagði í dag að sú ákvörðun forseta Íslands að synja staðfestingar breytingum á „Icesave-samningnum“ við stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi hafi óvissar afleiðingar fyrir lánstraust landsins, en muni áreiðanlega torvelda öll áform Íslands um að komast út úr fjármála- og efnahagskreppu sinni á næstunni.

„Fjárhagsleg staða ríkissjóðs ætti vel að þola tímabundna óvissu um nokkurt skeið án þess að það hefði áhrif á núverandi einkunn, Baa3,“ sagði Kenneth Orchard, talsmaður þess teymis hjá Moody's sem fjallar um lánshæfi ríkja. Á hinn bóginn varaði Orchard við því að „allar vísbendingar um að pólitískt uppnám væri í uppsiglingu á ný og/eða að önnur lönd tækju að beita harkalegum þrýstingi gæfu tilefni til að hafa verulegar áhyggjur af lánstrausti og gætu leitt til lækkunar á einkunn.“

Ákvörðun forsetans þýðir að samningnum verður trúlega vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu innan tveggja mánaða. Moody's bendir þó á að þó svo að lögunum yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu leiddi það ekki til þess að Ísland neitaði beinlínis að greiða skuldir sínar við bresk og hollensk stjórnvöld og að „Icesave-lögin“ frá ágúst 2009, sem höfðu að geyma ríkisábyrgð fyrir Icesave-skuldinni, væru áfram í gildi. Engu að síður kváðu lögin í ágúst á um takmarkanir á endurgreiðslum Icesave-skuldarinnar sem bresk og hollensk stjórnvöld samþykktu ekki að fullu. Sú löggjöf sem forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði að undirrita var málamiðlun sem náðist í kjölfarið við stjórnvöld þessara landa og fólst í því að lengja greiðslutímabilið og ríkisábyrgðina þar til lánin hefðu verið greidd að fullu.

Moody‘s segir að enn sé óljóst hvernig mál muni þróast, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. „Jafnvel þótt samsteypustjórnin hafi áður gefið til kynna að hún muni standa og falla með samþykkt Icesave-samningsins virðist ekki sem stjórnin muni segja af sér,“ útskýrir Orchard. Raunar brást ríkisstjórnin við ákvörðun forsetans með því að ítreka þann ásetning sinn að vinna að efnahagsáætlun sinni sem Icesave-samningurinn tilheyrir.

Greiningaraðilinn bendir á að bresk og hollensk stjórnvöld gætu að nýju beitt íslensk stjórnvöld þrýstingi á alþjóðavettvangi gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið, þótt aðgerð forsetans gefi vísbendingu um að sú aðferð sé í framkvæmd nokkrum takmörkunum háð. Greinilegt er að verulegur hluti íslensku þjóðarinnar hefur ekki enn látið sannfærast um að nýjasti Icesave-samningurinn sé þjóðinni fyrir bestu þegar til lengri tíma er litið og ólíklegt er að aukinn þrýstingur á alþjóðavettvangi breyti þessu útbreidda viðhorfi á næstunni.

Moody‘s bendir á það að ný pólitísk óvissa og aukinn þrýstingur á alþjóðavettvangi mundi torvelda Íslandi að komast út úr kreppunni. Aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum mundu tefjast og líklegt er að lánveitingum frá stjórnvöldum á Norðurlöndunum – og þar af leiðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðnum – yrði frestað, að minnsta kosti tímabundið. Stjórnvöld mundu jafnframt þurfa að glíma við að afnema gjaldeyrishöft án þess að hafa aðgang að viðbótarfjármagni erlendis á sama tíma og tiltrú á gjaldmiðlinum fer dvínandi. Í versta falli gætu utanríkisverslun og fjárfestingar Íslands orðið fyrir barðinu á viðskiptabönnum.

Moody‘s álítur þó ekki að fjárhagsleg staða ríkissjóðs sé ótrygg og því megi hann við nokkurra vikna eða jafnvel mánaða töf þar til málið leysist. „Opinberir gjaldeyrisvarasjóðir eru meira en nógir til að viðhalda núverandi gengi með gjaldeyrishöftum. Stjórnvöld geta einnig fjármagnað fjárlagahalla á innlendum fjármagnsmörkuðum og þurfa ekki að standa skil á neinum verulegum afborgunum af erlendum lánum fyrr en í desember 2011,“ útskýrir Orchard. Bæði Icesave-skuldirnar og fjölþjóðleg lán hafa langan greiðslufrest áður en endurgreiðsla hefst. Ennfremur sýna nýlegir hagvísar að líkur eru á að efnahagslægðin verði styttri og grynnri en áður hafði verið búist við.

Sjá ennfremur frétt Moody's frá í dag:

Tilkynning Moody's 6. janúar 2010.pdf

Til baka