logo-for-printing

05. janúar 2010

Standard & Poor's hefur sett lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs á athugunarlista

Matsfyrirtækið Standart & Poor's gaf í dag út frétt um lánshæfi Ríkissjóðs Íslands og fer hún hér á eftir í lauslegri þýðingu:

Yfirlit
• Synjun Icesave-samkomulagsins gæti leitt til tafa og endurskoðunar á efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
• Afleiðing af því gæti orðið lækkun lánshæfiseinkunna Íslands um eitt til tvö þrep innan mánaðar.
• Lánshæfiseinkunnir í innlendri mynt eru viðkvæmar vegna þess að hömlur eru á sveigjanleika peningamála.
• Við setjum lánshæfiseinkunnir okkar fyrir Ísland, BBB-/A-3 í erlendri mynt og BBB+/A-2 í innlendri mynt, á athugunarlista með neikvæðum horfum. 

Einkunnagjöf
Hinn 5. janúar 2010 setti matsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfiseinkunnir Íslands, BBB-/A-3 í erlendri mynt og BBB+/A-2 í innlendri mynt á athugunarlista með neikvæðum horfum.

Rökstuðningur
Það að lánshæfismat Ríkissjóðs Íslands hafi verið sett á athugunarlista gefur til kynna líkur á lækkun lánshæfismats ef stjórnmálaleg óvissa fer vaxandi og felur í sér að áfram reyni á greiðslugetu gagnvart útlöndum í kjölfar þess að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, beitti neitunarvaldi gagnvart „Icesave-lögunum“ sem Alþingi samþykkti 30. desember 2009.

Sú löggjöf sem neitað var staðfestingar hefði tryggt ríkisábyrgð á láni frá hollenskum og breskum stjórnvöldum til íslenska innstæðutryggingasjóðsins. Með því láni hefði á hinn bóginn hollenskum og breskum stjórnvöldum verið endurgreitt fyrir bætur þeirra til innstæðueigenda í Icesave, sem var útibú hins fallna Landsbanka í Hollandi og Bretlandi. Lausn Icesave-málsins er forsenda fyrir tvíhliða viðbótarfjármögnun frá Norðurlöndum sem er hluti af samkomulagi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Vegna þess að málinu var synjað staðfestingar væntum við þess að útgreiðslur á þeim 2,3 milljörðum Bandaríkjadala sem eftir eru af samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frestist og að forsendur áætlunarinnar kunni að þarfnast endurskoðunar, hugsanlega með því m.a. að hækka markmið um frumjöfnuð ríkissjóðs. Fjármögnunin er lykillinn að því að auka við gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans (nú u.þ.b. 2,5 milljarðar evra) og að mögulegt verði með tímanum að afnema þau gjaldeyrishöft sem sett voru síðla í nóvember 2008. 

Í kjölfar synjunarinnar geta stjórnvöld nú valið um það að vísa löggjöfinni í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þá gerum við ráð fyrir að hún verði felld, eða að draga löggjöfina til baka. Í hvoru tilfelli um sig virðist ólíklegt að deilan verði leyst á næstunni.

Athugunarlisti
Við búumst við að komast að niðurstöðu um lánshæfismatið í þessum mánuði þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um vilja stjórnvalda til að grípa til aðgerða sem gætu endurvakið tiltrú fjárfesta og um aðgang hins opinbera að erlendu lánsfé. Ef málið verður áfram í pólitískum ógöngum eða ef við metum það svo að þróun mála hafi haft áhrif á aðgang Ríkissjóðs Íslands að erlendu lánsfé, þá gætum við lækkað einkunnir um eitt eða tvö þrep.

Sjá frétt Standard & Poor's í dag:

SoP50110.pdf

Til baka