logo-for-printing

23. desember 2009

Fitch staðfestir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs

Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að fyrirtækið hefði staðfest langtímaeinkunnir Íslands í erlendum og innlendum gjaldmiðli, BBB- í erlendri mynt, og A- í innlendri mynt og tekið ríkissjóð af gátlista. Horfur eru neikvæðar. Einkunn fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt er staðfest F3 og landseinkunn BBB-.

Meðfylgjandi er lausleg þýðing á efni fréttar Fitch Ratings í dag um lánshæfiseinkunn ríkissjóðs:

„Það að ríkissjóður hefur verið tekinn af gátlista endurspeglar framvindu í endurskipulagningu fjármálageirans, viðunandi framkvæmd Íslands á efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og mun styrkari erlenda stöðu þjóðarbúsins,“ segir Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá Fitch í Lundúnum. Nýleg útgreiðsla á láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í tengslum við efnahagsáætlunina, auk viðbótargreiðslna í tengslum við tvíhliða samninga við Norðurlöndin að fjárhæð 300 milljónir evra, ættu að auka gjaldeyrisforða Íslands í um það bil 3,7 milljarða Bandaríkjadala í lok árs 2009. Að auki munu standa til boða 3,3 milljarðar Bandaríkjadala í tengslum við lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Greiðslubyrði ríkissjóðs af erlendum lánum verði hins vegar óveruleg þar til á síðari hluta ársins 2011, en þá koma á gjalddaga erlend lán ríkissjóðs að fjárhæð 1,3 milljarðar evra.
Ákvörðunin sem að ofan greinir gefur til kynna áframhaldandi hættu á lækkun lánshæfismatsins. Hún endurspeglar fyrst og fremst það mat Fitch að hægt hefur gengið hjá stjórnvöldum að koma fjármálasamskiptum við umheiminn í eðlilegt horf. Mikilvægur þáttur í þessu samhengi er lausn „Icesave“-málsins, þ.e. tvíhliða samninga við bresk og hollensk stjórnvöld um fjármögnun á endurgreiðslu til innstæðueigenda Icesave-reikninga. Fitch lítur svo á að samþykkt Alþingis á Icesave-samkomulaginu geti verið skammt undan. Hins vegar telur matsfyrirtækið að það geti grafið undan lánshæfi ríkissjóðs ef langan tíma tekur að aflétta gjaldeyrishömlum og koma á stöðugleika í gengismálum.

Sjá frétt Fitch Ratings í dag:

Fitch affirms Iceland at 'BBB-'/'A-'; off RWN; outlook negative (pdf)

Til baka