logo-for-printing

31. október 2009

Fyrsta skref í afnámi gjaldeyrishafta

Seðlabanki Íslands hefur stigið fyrsta skrefið í afnámi gjaldeyrishafta með því að heimila innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga og útstreymi gjaldeyris sem kann að leiða af því í framtíðinni. Þetta þýðir að fjárfestar fá heimild án takmarkana til þess að skipta aftur í erlendan gjaldeyri söluandvirði eigna sem þeir fjárfesta í eftir 1. nóvember 2009. Fyrir höfðu erlendir aðilar fulla heimild til gjaldeyrisyfirfærslna vegna vaxtatekna og arðs af fjárfestingum hér á landi.

Gjaldeyrisinnstreymi vegna nýfjárfestingar verður breytt í krónur hjá fjármálafyrirtæki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Til þess að síðan verði heimilt að flytja fjármunina aftur úr landi þarf að skrá nýfjárfestinguna hjá Seðlabanka Íslands. Það mun gera bankanum kleift að fylgjast með innstreyminu og efla gjaldeyrisforðann með inngripum ef aðstæður leyfa.

Jafnframt ofangreindri breytingu hafa gjaldeyrisreglurnar verið endurbættar með það að leiðarljósi að draga úr misræmi og loka glufum sem notaðar hafa verið til að fara í kringum höftin. Stærstu breytingar eru eftirfarandi:

• Undanþágur ýmissa aðila, t.d. sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja, fyrirtækja með fjárfestingarsamninga o.fl. hafa verið endurskoðaðar (14. gr. reglna um gjaldeyrismál).
• Hreyfingar í krónum hafa verið takmarkaðar sérstaklega til þess að auðvelda framfylgd og koma í veg fyrir misnotkun á reglunum, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglnanna.
• Heimildir til endurfjárfestingar hafa verið auknar og framkvæmd þeirra gerð auðveldari, t.d. hvað varðar endurfjárfestingu arðs og gengishagnaðar, sbr. 1. mgr. 5. gr.
• Settar eru auknar takmarkanir á fjárfestingu í öðrum eignum, til að draga úr möguleikum á því að sniðganga reglurnar, sbr. 6. gr. reglnanna.

Þegar möguleikum til gjaldeyrisviðskipta er tengjast fjármagns-hreyfingum fjölgar kunna að opnast nýjar leiðir til þess að fara í kringum þau höft sem eftir verða. Því er nauðsynlegt að efla gjaldeyriseftirlit í því ferli. Það hefur Seðlabankinn þegar gert með því að endurskipuleggja og efla starfsemi gjaldeyriseftirlits, sbr. frétt nr. 30/2009. Til að draga úr hættu á því að farið verði í kringum gjaldeyrishöftin ná heimildir til að flytja út fjármagn að nýju ekki til ákveðinna tegunda fjárfestinga, t.d. afleiðusamninga sem fjármagnaðir eru með lánsfé.

Seðlabankinn mun birta leiðbeiningar við reglurnar sem munu uppfærðar eins og nauðsyn þykir.

Gjaldeyrishöftin sem sett voru á 28. nóvember 2008 voru talin nauðsynleg til að koma á stöðugleika í þjóðarbúskapnum í kjölfar fjármálakreppunnar í október 2008. Nú hafa skapast aðstæður til að stíga fyrsta skrefið í afnámi haftanna í samræmi við áætlun sem Seðlabankinn lagði fram 5. ágúst sl. Þannig liggur fyrir langtímaáætlun í ríkisfjármálum ásamt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sem felur í sér umtalsvert aðhald. Aðstæður hafa skapast fyrir stöðugra gengi krónunnar. Þá hefur fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú farið fram, en hún tryggir Seðlabankanum aðgang að auknum gjaldeyrisforða.

Næsti áfangi afnáms gjaldeyrishafta, þ.e. afnám hafta á útstreymi fjármagns, ræðst af því hvernig til tekst með þennan áfanga og framgangi efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Guðbjartsdóttir forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.


Nr. 33/2009
31. október 2009

Til baka