logo-for-printing

24. september 2009

Vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands og útgáfa 28 daga innstæðubréfa

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að vextir lána gegn veði verði áfram 12% og vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana verði áfram 9,5%, en að daglánavextir lækki úr 16% í 14,5%.

Seðlabanki Íslands hefur einnig ákveðið að halda uppboð á innstæðubréfum til 28 daga. Uppboðin verða haldin vikulega á miðvikudögum. Fyrsta uppboðið verður haldið miðvikudaginn 30. september næstkomandi. Seðlabankinn býður út takmarkaða heildarfjárhæð og gagnaðilar bjóða í vexti, með 9,5% lágmarksvexti og 10% hámarksvexti. Á hverju uppboði verða seld innstæðubréf að andvirði 15 - 25 milljarðar króna. Þátttaka í uppboðunum og réttur til að eiga innstæðubréfin takmarkast við fjármálafyrirtæki í viðskiptum við Seðlabankann. Hægt er að leggja þau að veði gegn lánum í Seðlabankanum. Að hámarki er hægt að gera tilboð í 50% þess magns sem er í boði.

Nr. 31/2009
24. september 2009

Sjá nánar:

Vextir Seðlabanka Íslands.pdf  (Gildir frá og með 24. og 30. september 2009)

Til baka