logo-for-printing

17. ágúst 2009

Aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands

Staða aðalhagfræðings og framkvæmdastjóra hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands er hér með auglýst laus til umsóknar. Á hagfræðisviði er unnið að almennum hagrannsóknum, auk þess sem sviðið hefur umsjón með þjóðhags- og verðbólguspám Seðlabankans og almennri greiningu á stöðu efnahagsmála. Aðalhagfræðingur sinnir almennum stjórnunarstörfum á hagfræðisviði og öðrum þeim skyldum sem stöðu aðalhagfræðings fylgja. Hann tekur þátt í rannsóknum, greiningu og ritstörfum eftir því sem tilefni er til eða þörf krefur. Aðalhagfræðingur er helsti ráðgjafi bankastjóra á sviði efnahagsmála og peningastefnu og er ábyrgur fyrir undirbúningi funda peningastefnunefndar bankans.

Gerð er krafa um að umsækjandi fullnægi eftirfarandi skilyrðum:

  • Hafi a.m.k. meistaragráðu í hagfræði
  • Búi yfir umtalsverðri reynslu á sviði hagrannsókna og greiningar, helst er tengist peningastefnu
  • Hafi gott vald á rituðu og mæltu máli, bæði íslensku og ensku
  • Eigi auðvelt með mannleg samskipti

Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu af stjórnun. Einnig væri það styrkur að umsækjandi hafi öðlast reynslu við gerð þjóðhags- og verðbólguspár. Umsóknum skal skilað til rekstrarsviðs Seðlabanka Íslands fyrir 28. ágúst 2009.
Til baka