logo-for-printing

26. júní 2009

Már Guðmundsson skipaður seðlabankastjóri

Forsætisráðuneytið hefur birt eftirfarandi fréttatilkynningu um skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra:

Forsætisráðherra hefur skv. 1. mgr. 23. gr. laga um Seðlabanka Íslands skipað Má Guðmundsson í embætti Seðlabankastjóra til fimm ára frá og með 20. ágúst 2009 og Arnór Sighvatsson í embætti aðstoðarseðlabankastjóra til fjögurra ára frá og með 1. júlí 2009. Skipunartími aðstoðarseðlabankastjóra tekur mið af 1. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða með lögum nr. 26/2009.

Már Guðmundsson lauk BA prófi í hagfræði frá háskólanum í Essex auk þess sem hann stundaði nám í hagfræði og stærðfræði við Gautaborgarháskóla. Hann er með M-phil. gráðu í hagfræði frá háskólanum í Cambridge og stundaði þar doktorsnám. Már hefur frá árinu 2004 gegnt starfi aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss. Hann starfaði áður í Seðlabanka Íslands í um tvo áratugi og þar af sem aðalhagfræðingur í rúm tíu ár. Már var efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra frá 1988- 1991. Már hefur ritað fjölda greina og ritgerða um peninga- og gengismál og skyld efni.

Arnór Sighvatsson lauk doktorsprófi í hagfræði frá Northern Illinois háskóla og hafði áður lokið BA í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og MA prófi í hagfræði frá Northern Illinois háskóla. Með námi starfaði Arnór við Hagstofu Íslands og kenndi við Northern Illinois háskólann ásamt doktorsnámi. Hann hóf störf í Seðlabanka Íslands árið 1990, var aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs frá árinu 2004 og settur aðstoðarseðlabankastjóri árið 2009. Arnór var aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skrifstofu Norðurlanda, frá 1993 – 1995. Arnór er höfundur margra greina um peningamál og gengismál.

Settur Seðlabankastjóri, Svein Harald Øygard, mun gegna því embætti uns Már Guðmundsson tekur við embættinu 20. ágúst næstkomandi.


Til baka