logo-for-printing

28. nóvember 2008

Frétt: Nýjar reglur um gjaldeyrismál

Tilmæli Seðlabanka Íslands frá því snemma í október um tímabundna temprun á útflæði gjaldeyris eru afturkölluð. Þau voru kynnt til sögunnar eftir að þrír bankar komust í þrot og mikla markaðsröskun sem því fylgdi. Í kjölfarið hóf Seðlabankinn viðskipti með gjaldeyri úr gjaldeyrisforða sínum með daglegum uppboðum til að liðka fyrir gjaldeyrisviðskiptum sem gengu stirðlega, m.a. vegna þrenginga í greiðslumiðlun. Afnám tilmælanna þýðir að engar hömlur eru lengur á gjaldeyrisviðskiptum sem tengjast inn- og útflutningi vöru og þjónustu né vöxtum, verðbótum og afborgunum af lánum.    

Í síðustu viku staðfesti framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lánssamning við íslensk stjórnvöld. Í honum felst m.a. að áfram verði hömlur á fjármagnsflutningum á milli Íslands og annarra landa. Þeim verður aflétt um leið og viðunandi stöðugleiki næst á gjaldeyrismarkaði. Alþingi hefur staðfest frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um gjaldeyrismál frá 1992. Í þeim er Seðlabankanum heimilað, að höfðu samþykki viðskiptaráðherra, að setja reglur um takmarkanir á fjármagnsflutningum á milli landa. Þessi heimild hefur nú verið nýtt og mun Seðlabankinn birta reglur um gjaldeyrismál á grundvelli laganna á heimasíðu sinni. Reglurnar verða endurskoðaðar fyrir 1. mars 2009.

(Innskot: Reglurnar hafa verið birtar, sjá hér: Reglur um gjaldeyrismál)

Tilgangurinn með reglunum er að takmarka um sinn útflæði gjaldeyris sem gæti haft neikvæð áhrif á endurreisn stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Í reglunum felst m.a. að þeim sem eignast erlendan gjaldeyri er skylt að skila honum til innlendra fjármálafyrirtækja þótt heimilt verði að leggja hann inn á innlánsreikning í erlendri mynt. Takmarkanir eru settar á fjármagnshreyfingar aðila sem hyggjast skipta íslenskum krónum í erlendan gjaldeyri.

Einnig felst í reglunum að viðskipti á milli innlendra og erlendra aðila með verðbréf og aðra fjármálagerninga sem gefin eða gefnir hafa verið út í íslenskum krónum eru óheimil. Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa fyrir milligöngu innlendra aðila verðbréf sem gefin hafa verið út í krónum. Þetta á þó ekki við um erlenda aðila sem þegar eiga krónur. Einnig er erlendum aðilum óheimilt að gefa út verðbréf hér á landi. Innlendum aðilum er jafnframt óheimilt að fjárfesta í erlendum verðbréfum. Erlend lántaka, ábyrgðaveitingar til erlendra aðila og afleiðuviðskipti sem ekki tengjast vöru- eða þjónustuviðskiptum eru takmörkuð eða óheimil.

Athygli er vakin á að í fyrstu viku desember verður efnt til útboða á ríkisbréfum. Erlendir fjárfestar sem eiga ríkisbréf á gjalddaga 12. desember n.k. geta m.a. endurfjárfest andvirði þeirra í nýjum ríkisbréfum.

Ítrekað skal að engar hömlur eru lengur á gjaldeyrisviðskiptum sem tengjast inn- og útflutningi vöru og þjónustu. Hömlunum sem beitt er nú, á grundvelli nýsettra laga ná til gjaldeyrisviðskipta sem tengjast fjármagnsflutningum á milli Íslands og annarra landa. Þær eru nauðsynlegur hluti ráðstafana sem miða að því að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Þær verða afnumdar svo fljótt sem aðstæður leyfa.

Nr. 46/2008
28. nóvember 2008

Til baka