logo-for-printing

30. október 2008

Gjaldeyrismarkaður

Vegna hinna sérstöku aðstæðna sem upp komu í rekstri banka nú í október lögðust niður við­skipti á millibankamarkaði með gjaldeyri. Á þeim markaði sinntu stóru við­skipta­bank­arnir þrír hlutverki viðskiptavaka samkvæmt reglum um tíðni tilboða, verðmyndun og fleira.

Í staðinn kom Seðlabankinn upp svonefndum tilboðs­markaði fyrir gjaldeyri, saman­ber tilkynningu á heimasíðu bank­ans 15. október sl. Á þeim markaði eru fleiri fjár­málafyrirtæki en við fyrri skipan en taka ekki á sig skyldur viðskiptavaka. Niður­stöður um viðskipti og verð eru birtar daglega á heimasíðu Seðlabankans.

Ætla má að unnt sé að auka veltu og styrkja verðmyndun á tilboðsmarkaðnum. Í því skyni eru útflytjendur og aðrir sem eiga gjaldeyri eindregið hvattir til að bjóða hann til sölu á þeim vett­vangi. Þeir geta snúið sér til fjármálafyrirtækja sem eiga viðskipti við Seðla­bankann [1]  og falið þeim að koma tilboðum sínum á framfæri.

Verðmyndun utan tilboðsmarkaðar er til þess fallin að seinka heilbrigðum viðskipta­háttum með gjaldeyri og skaða tilraunir til að koma þeim í eðlilegt horf. Auk þess eru utanmarkaðsviðskipti ógagnsæ og áhættusöm.

 
[1]  Fjármálafyrirtæki sem starfsleyfi hafa skv. 1., 2., 3., eða 4. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki geta stofnað viðskiptareikning í Seðlabanka Íslands og átt við hann viðskipti. Þau sem það hafa gert eru: NBI (Nýi Landsbanki), Nýi Glitnir banki, Nýi Kaupþing banki, Straumur fjárfestingarbanki, Sparisjóðabankinn, Byr sparisjóður, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóðurinn Dalvík, Sparisjóður Höfðhverfinga, VBS fjárfestingarbanki, MP fjárfestingarbanki, Saga Capital, Askar Capital, Frjálsi fjárfestingarbankinn, Lánasjóður sveitarfélaga, Borgun og Valitor.

Til baka