logo-for-printing

04. september 2008

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi 2008

Í dag verða birt á heimasíðu Seðlabanka Íslands bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2008 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Tap á beinni fjárfestingu Íslendinga erlendis (svokölluð endurfjárfesting) ræður mestu um að viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 128,1 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins. Halli þáttatekna hefur ekki áður mælst jafn mikill, og skýrist breytingin að mestu af tapi á beinni fjárfestingu. Vaxtakostnaður vegna erlendra skulda hefur einnig hækkað. Vöruskipti í fjórðungnum voru nánast í jafnvægi en þjónustujöfnuður var neikvæður um 9,4 ma.kr. Gengisáhrif voru fremur lítil í ársfjórðungnum.

Hreint fjárútstreymi nam 55,5 ma.kr. í ársfjórðungnum en á fyrsta ársfjórðungi var fjárinnstreymi 133,2 ma.kr. Erlendir aðilar eru taldir eiga 64,7 ma.kr. af þeim 75 ma.kr. innstæðubréfum sem Seðlabankinn gaf út á fyrri hluta árs 2008. Bein fjárfesting útlendinga hér á landi lækkaði um 107,6 ma.kr. sem stafar að mestu af lánahreyfingum sem tengjast tilfærslu fyrirtækja á milli landa en bein fjárfesting Íslendinga erlendis hækkaði um 10,8 ma.kr. Verðbréfaeign erlendra fjárfesta á innlendum skuldabréfum hækkaði um 286,5 ma.kr.

Skekkjuliður í ársfjórðungsuppgjörinu er stór en jákvæður að þessu sinni og fer nærri að hann vegi upp neikvæðan skekkjulið síðustu fjögurra ársfjórðungsuppgjöra. Reynsla Seðlabankans er sú að skekkjuliður skýrist oftast af ónógum upplýsingum um fjármagnshreyfingar.

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 2.095 ma.kr. í lok annars ársfjórðungs og versnaði um 27 ma.kr. í ársfjórðungnum. Endurmat á hreinni stöðu í lok síðasta árs leiddi til 196 ma.kr. bata.

Heimtur á skýrslum frá þeim aðilum sem ber að upplýsa bankann um erlend viðskipti hafa batnað að undanförnu en samt er nokkuð um að þær berist seint. Slíkt hamlar vinnslu við uppgjör greiðslujafnaðar og erlendrar stöðu og dregur úr nákvæmni og upplýsingagildi uppgjöranna. Hvetur Seðlabankinn þá sem skila eiga skýrslum um erlend fjármagnsviðskipti og stöðu eigna og skulda til að gera enn betur.


Fréttin í heild með töflum (pdf-skjal)

Nr. 25/200
4. september 2008

Til baka