logo-for-printing

14. apríl 2008

Málstofa um þjóðhagsstærðir og þjóðhagsspár

Málstofa verður haldin þriðjudaginn 15. apríl kl. 15:00 í fundarsal Seðlabankans, Sölvhóli. Málshefjandi er Dr. Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands. Erindi hans ber heitið „Breytileiki í þjóðhagsstærðum og skekkjur í þjóðhagsspám".


Ágrip:
Breytileiki í þjóðhagsstærðum og skekkjur í þjóðhagsspám tengjast að því leyti að væntanlega er auðveldara að spá ef breytileiki þjóðhagsstærðanna er minni. En minnkun breytileikans hefur einnig þýðingu fyrir hagstjórnina því auðveldara ætti að vera að stýra þjóðarskútunni þegar skellirnir sem á henni dynja eru minni.

Erlendis hefur mikið verið fjallað um minnkun breytileikans í þjóðhagsstærðum sem á ensku nefnist Great Moderation. Fjölmargar lærðar greinar eru til um þýðingu hennar fyrir hagstjórn; hvort hún sé afleiðing af bættri hagstjórn eða hvort bætt hagstjórn sé afleiðing hennar og hvort hún sé varanleg. Í þessum fyrirlestri verður leitast við að greina þróunina hér á landi og mögulegar ástæður minnkunar breytileikans og bera hana saman við niðurstöður úr erlendum rannsóknum. Sýnt er að breytileikinn í þjóðartekjum hefur minnkað meir en breytileikinn í landsframleiðslunni. Helstu ástæður þessa eru að breytileikinn í viðskiptakjörum hefur minnkað auk þess sem fylgni breytinga í viðskiptakjörunum við breytingar í landsframleiðslu hefur minnkað. Breytileikinn í landsframleiðslunni hefur minnkað meir en breytileiki þeirra þjóðhagsstærða sem landsframleiðslan er reiknuð út frá, nema útflutnings. Sýnt er fram á að sterkt samband er á milli breytileika í útflutningi og landsframleiðslu.

Í síðari hluta fyrirlestrarins verður farið yfir niðurstöður úr tölfræðilegri athugun á þjóðhagsspám hér á landi, m.a. með hliðsjón af breytingum í breytileika þjóðhagsstærðanna. Fjallað verður um spár Þjóðhagsstofnunar, Seðlabankans og um fyrstu tölur Hagstofunnar.





Til baka