logo-for-printing

25. janúar 2008

Fyrsti virki dagur ársins

Sú staðreynd að afgreiðslur banka og sparisjóða hafa verið lokaðar hér á landi fyrsta virka dag ársins á sér sögulegar skýringar sem ekki eiga lengur við. Því hefur bankastjórn Seðlabanka Íslands ákveðið að Seðlabankinn verði framvegis opinn þann dag á sama hátt og aðra virka daga. Í því felst að unnt verður að eiga þau viðskipti við Seðlabankann sem viðskiptavinir hans jafnan eiga, þ.m.t. að færa færslur um stórgreiðslukerfið og eiga viðskipti með seðla og mynt svo dæmi séu tekin. Bankar og sparisjóðir eiga þess því kost að hafa afgreiðslur sínar opnar á þessum degi.

Fyrr í þessum mánuði kynnti Seðlabankinn þessi áform með bréfi til allra viðskiptabanka og sparisjóða svo og Fjölgreiðslumiðlunar hf., Reiknistofu bankanna og Verðbréfaskráningar Íslands hf. Engar athugasemdir hafa borist. Æskilegt er að fjármálafyrirtæki kynni sem fyrst áform sín í þessu efni svo ljóst verði hvort umræddur dagur verði venjulegur bankadagur.

Nánari upplýsingar veitir Eiríkur Guðnason bankastjóri í síma 569-9600.


Nr. 3/2008
25. janúar 2008

Til baka