logo-for-printing

14. janúar 2008

Seðlabanki Íslands rýmkar reglur um veð í viðskiptum við bankann

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að rýmka reglur um verðbréf sem teljast veðhæf í reglulegum viðskiptum fjármálafyrirtækja við bankann. Breytingarnar miða að því að færa reglur Seðlabankans nær því sem gerist í nálægum löndum þannig að rekstrarumhverfi og samkeppnisstaða íslenskra banka verði áþekk því sem erlendir samkeppnisbankar búa við að því er varðar veðlánaviðskipti við seðlabanka. Meðal nýrra veðhæfra verðbréfa verða nú verðbréf í erlendum gjaldmiðli auk þess sem rýmkaðar verða reglur um sértryggð skuldabréf, samkvæmt nánari skilyrðum sem útfærð verða í reglum Seðlabankans.

Ýmsir seðlabankar hafa rýmkað mögulega lausafjárfyrirgreiðslu sína undanfarnar vikur og mánuði. Á íslenskum millibankamarkaði hafa viðskipti gengið vel fyrir sig, ávöxtun verið í eðlilegu samhengi við stýrivexti Seðlabankans og miðlun lauss fjár undantekningarlaust verið hnökralaus.

Nýjar reglur um veð verða kynntar fjármálafyrirtækjum á næstu dögum og birtar með hefðbundnum hætti.

Nánari upplýsingar veitir Sturla Pálsson framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans í síma 569-9600.

Nr. 1/2008
14. janúar 2008

Til baka