logo-for-printing

20.11.2007

Standard & Poor's breytir horfum um lánshæfismat ríkissjóðs

Standard & Poor's breytir horfum um lánshæfismat ríkissjóðs í neikvæðar vegna ójafnvægis í hagkerfinu. Lánshæfiseinkunnir eru óbreyttar.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's birti í dag frétt sem er svo hljóðandi í lauslegri íslenskri þýðingu:

Matsfyrirtækið Standard & Poor's greindi frá því í dag að það hefði breytt horfum á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands í neikvæðar úr stöðugum. Matsfyrirtækið staðfesti einnig óbreyttar lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands í erlendri mynt A+ (les: A plús) fyrir langtímaskuldbindingar og A-1 (les: A1) fyrir skammtímaskuldbindingar. Í íslenskum krónum eru einkunnirnar AA (les: AA ) fyrir langtímaskuldbindingar og A-1+ (les: A1 plús) fyrir skammtímaskuldbindingar.

Endurskoðun á horfunum endurspeglar vaxandi og þrálátt ójafnvægi í íslenska hagkerfinu, auk skorts á aðhaldi í ríkisfjármálum. Þótt skammtímaraunvextir Seðlabankans hafi farið yfir 8% er virkni miðlunar peningastefnunnar takmörkuð af snarpri aukningu í erlendum lántökum heimila og lítilli svörun vaxta á íbúðalánum við auknu aðhaldi peningastefnunnar.

Endurnýjaður vöxtur í neyslu og seinkun á aukningu útflutnings leiða til þess að viðskiptahallinn mun ekki lagast eins hratt og búist var við. Áframhald á mikilli lántöku til húsnæðiskaupa kyndir undir verðhækkunum á húsnæði sem aftur dregur úr hjöðnun verðbólgu. Þetta er undirrót þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í 13,75% í nóvember 2007.

Hagvöxtur hefur verið mikill í síðustu uppsveiflum í fjárfestingu og útlánum og á húsnæðismarkaði. En hægja mun óhjákvæmilega á honum þegar hagkerfið kólnar. Veruleg hætta er á að hagvöxtur dragist saman vegna áhrifa frá leiðréttingu á gengi, fasteignamarkaði eða lánamarkaði.

Fjármál hins opinbera bötnuðu verulega í efnahagsuppsveiflunni. Afgangur af rekstri ríkis og sveitarfélaga var að meðaltali 5,6% af VLF árin 2005-2007. Ásamt myndarlegum tekjum frá einkavæðingu mun þetta hjálpa til við að færa skuldir hins opinbera undir 10% af VLF árið 2007 úr 38% árið 2003. Hins vegar hafa óbeinar ábyrgðir vegna fjármálageirans vaxið mikið vegna hraðrar útlánaaukningar innanlands.

Neikvæðar horfur endurspegla vaxandi hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins. Sá efnahagssamdráttur sem nú er hafinn mun hjálpa til við að vinda ofan af efnahagslegu ójafnvægi en sú þróun mun líklega tefjast vegna áætlana um hraða aukningu á útgjöldum hins opinbera sem og því að stöðugt hefur mistekist að endurskipuleggja Íbúðalánasjóð. Í tengslum við háa og hækkandi innlenda og alþjóðlega vexti munu þessir þættir auka áhættuna á  harðri lendingu íslenska hagkerfisins.

„Lánshæfismatið gæti lækkað ef jafnvægi fæst aðeins með harkalegri aðlögun, sem hefði áhrif á stöðu opinberra fjármála þegar halli á ríkissjóði vex og gengið verður á óbeinar ábyrgðir,“ sagði sérfræðingur Standard & Poor's, hr. Stukenbrock. „Ef hins vegar verður undið ofan af ójafnvæginu án verulegra vankvæða og áhættu því samfara er hamin ættu horfur aftur að verða stöðugar á ný.“

Nánari upplýsingar veitir Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 21/2007
20. nóvember 2007


Til baka