logo-for-printing

09. nóvember 2007

Tekjur af útfluttri hugbúnaðar- og tölvuþjónustu jukust talsvert árið 2006

Seðlabanki Íslands birtir hér á þessu vefsetri samantekt um útflutning á hugbúnaðar- og tölvuþjónustu árið 2006, en bankinn hefur aflað gagna um þetta frá árinu 1990. Fram kemur í gögnunum að upplýsingaiðnaðurinn hafi farið ört vaxandi á síðustu misserum og að útflutningstekjur í þeirri atvinnugrein hafi nær sexfaldast frá árinu 1996. Á árinu 2006 jukust útflutningstekjurnar um 30,4% miðað við fyrra ár.

Upplýsingar fyrir árið 2006 byggja á svörum 112 fyrirtækja. Fram kemur að ársvelta hugbúnaðarfyrirtækja á síðasta ári hafi verið 33,6 ma.kr. og að veltan hafi á síðasta ári verið að raungildi tuttugu sinnum sú sem hún var árið 1990. Velta annarra atvinnugreina hafi á sama tíma tvöfaldast að raungildi.

Þá kemur fram að fjöldi starfsmanna í hugbúnaðariðnaði hafi rúmlega tvöfaldast á þessum tíma og sé nú um 2.400. Hlutfall starfsmanna í hugbúnaðariðnaði hafi aukist úr 0,7% í 1,4% af heildarfjölda á vinnumarkaði á árunum 1991 til 2006.


Sjá nánar:
Útflutningur á hugbúnaðar- og tölvuþjónustu árið 2006. Pdf-skjal. Samantekt Bryndísar Pétursdóttur, Upplýsingasviði Seðlabanka Íslands.

Til baka