logo-for-printing

18. september 2007

Verðbólga yfir þolmörkum

Við mælingu í byrjun september reyndist vísitala neysluverðs hafa hækkað um 4,2% á liðnum tólf mánuðum. Verðbólgumarkmiðið er sem kunnugt er 2½%. Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands frá 27. mars 2001 segir að víki verðbólga meira en 1½% frá settu marki beri bankanum að senda greinargerð til ríkisstjórnar þar sem fram kemur hver ástæða frávikanna er, hvernig bankinn hyggst bregðast við og hve langan tíma hann telur það taka að ná verðbólgumarkmiðinu að nýju.

Fimmtudaginn 6. september sl. tilkynnti bankastjórn Seðlabanka Íslands að stýrivextir bankans skyldu vera óbreyttir, 13,3%. Í yfirlýsingu sem fylgdi ákvörðuninni sagði m.a. að verðbólguspá sem birtist í Peningamálum í júlí sl. benti til þess að ekki yrði unnt að lækka stýrivexti fyrr en á fyrri helmingi næsta árs. Að mati banka­stjórnar væri ekki tilefni til að hvika frá því mati að svo stöddu. Þá kom fram að nokkur gengisórói hefði verið að undanförnu og verð­bólguhorfur til skamms tíma væru heldur lakari en við síðustu vaxtaákvörðun. Til lengri tíma hefðu þær hins vegar lítið breyst. Þá var nefnt að greining á langtímaverðbólguhorfum sem birtist í Peninga­málum í júlí sl. gilti enn í aðalatriðum.

Í grunnspánni um verðbólgu sem birt var í Peningamálum í júlí sl. hjaðnaði verðbólga í átt að verðbólgumarkmiði, var nærri því upp úr miðju næsta ári og verðbólgumarkmiðinu var að fullu náð á árinu 2009. Hækkun vísitölu neysluverðs nú og nýjar þjóðhagstölur benda til meiri verðbólguþrýstings en vænst var.

Í mars sl. hóf Seðlabankinn að birta eigin stýrivaxtaspár. Í því felst að þeim spurningum sem kveðið er á um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans frá 2001 er í reynd svarað í hverju hefti Peninga­mála. Seðlabankinn gefur út Peningamál með nýjum verðbólgu- og þjóðhagsspám 1. nóvember nk. Um leið verður kynnt næsta ákvörðun bankastjórnar um stýrivexti.

Í ljósi framansagðs og með samþykki forsætisráðherra telur banka­stjórn ekki tilefni til birtingar ítarlegri greinargerðar að sinni. Hækkun mældrar verðbólgu í 4,2% nú er tímabundið frávik í lækkunarferli hennar sbr. spá bankans frá júlí sl.

 

Nr. 19/2007

18. september 2007

 

Til baka