logo-for-printing

18.06.2007

Nýjar reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands og breytt framsetning á vöxtum bankans

Í dag eru birtar á vefsíðu bankans nýjar reglur um viðskipti fjár­málafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, reglur um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands svo og auglýsing um vexti við Seðlabanka Íslands. Reglurnar taka gildi 21. júní n.k. eftir birtingu í Stjórnar­tíðindum miðvikudaginn 20. júní. Nokkrar breytingar sem í þessum nýmælum felast voru kynntar í frétt bankans nr. 9, 16. maí sl. Athygli er vakin á því að reglulegar lánveitingar Seðlabankans til fjármála­fyrirtækja sem fram hafa farið á þriðjudögum verða framvegis á mið­vikudögum, fyrst miðvikudaginn 27. júní n.k.

Þá er rétt að undirstrika, eins og kynnt var 16. maí sl., að stýrivextir bankans verða nú settir fram sem 13,30% forvextir í stað 14,25% ávöxtunar. Í þessu felst ekki breyting á stýrivöxtum. Í frétt bankans 16. maí sl. sagði m.a. að hingað til hefðu stýrivextir sem Seðlabankinn hefur tilkynnt og birt í vaxtatilkynningum sínum í reynd verið ávöxtun á ári en ekki nafnvextir. Nú hefði verið ákveðið að framvegis yrðu allir vextir Seðlabankans settir fram og tilkynntir sem nafnvextir. Þegar vextir eru reiknaðir oftar en einu sinni á ári eru nafnvextir lægri tala en ávöxtun á ári. Frá desember sl. hefur ávöxtun á veðlánum sem Seðlabankinn veitir fjármálafyrirtækjum verið 14,25% á ári og stýri­vextir bankans verið sagðir 14,25%. Flestir aðrir seðlabankar hafa annan hátt á, þ.e. að birta stýrivexti sem nafnvexti. Vegna þessa hefur samanburður stýrivaxta Seðlabanka Íslands og stýrivaxta annarra seðlabanka verið villandi. Nafnvextir lána Seðlabankans gegn veði sem samsvara 14,25% ávöxtun eru t.d. 13,30%. Ef bera á stýrivexti Seðlabanka Íslands saman við stýrivexti annarra seðlabanka er því eðlilegt að nota 13,30% en ekki 14,25%.

Breytingin nú felur sem sagt ekki í sér breytingu á stýrivöxtum eða peningalegu aðhaldi, heldur aðeins á framsetningu þeirra.

Nánari upplýsingar veita Eiríkur Guðnason bankastjóri og Sturla Páls­son framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

 

Nr. 13/2007

18. júní 2007

Til baka