logo-for-printing

16. maí 2007

Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands: Óbreyttir stýrivextir

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, þ.e. 14,25%. Verðbólga hefur hjaðnað en nokkru hægar en gert var ráð fyrir í spá bankans í mars sl. Undirliggjandi verðbólga er enn langt yfir verðbólgumarkmiði bankans.

Verðbólguhorfur til næstu ára eru taldar áþekkar og í mars.

Raunstýrivextir eru háir og sér þess stað í ávöxtun bæði óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa. Stefnuyfirlýsing bankastjórnar og spá um stýrivexti sem birtust í síðasta hefti Peningamála hafa haft áhrif í þessa átt. Áhrif hærri ávöxtunarkröfu skuldabréfa gætu enn átt eftir að koma fram að fullu í útlánsvöxtum lánastofnana.

Framvinda efnahagsvísbendinga það sem af er ári virðist í aðalatriðum í samræmi við þjóðhagsspá Seðlabankans sem gefin var út í marslok. Vöruútflutningur hefur þó sennilega verið meiri en spáð var. Hraður atvinnuvöxtur bendir til þess að umsvif í efnahagslífinu verði a.m.k. ekki minni næstu mánuði en fólst í spánni.

Hagstæð skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, háir innlendir vextir og bjartsýni í efnahagslífinu hafa stuðlað að háu gengi krónunnar. Mikill viðskiptahalli og tiltölulega hátt raungengi fela sem fyrr í sér verulega hættu á lækkun gengisins, t.d. ef alþjóðleg fjármálaskilyrði verða óhagstæðari. Verðbólguhorfur gætu þá versnað, einkum ef gengið lækkar áður en dregur úr spennu á vinnumarkaði sem engin teikn eru um enn. Þá gætu verðlagsáhrif launahækkana undanfarið ár langt umfram framleiðnivöxt enn átt eftir að koma fram að fullu.

Samkvæmt marsspá Seðlabankans næst verðbólgumarkmið hans á þriðja fjórðungi þessa árs en á næsta ári ef litið er framhjá áhrifum lækkunar neysluskatta í mars sl. Þótt horfurnar nú séu í meginatriðum svipaðar er ítrekað að meiri hætta er talin á að verðbólga verði meiri en spáð var en að hún verði minni. Nýleg verðþróun, áframhaldandi spenna á vinnumarkaði, mikill viðskiptahalli og sterk eftirspurn undirstrika þessa hættu. Versni verðbólguhorfur frá því sem gert var ráð fyrir í marsspánni mun Seðlabankinn þurfa að bregðast við.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um stýrivexti verður tilkynnt 5. júlí n.k. samhliða birtingu þjóðhags- og verðbólguspár í Peningamálum.

Nr. 8/2007
16. maí 2007

Til baka