logo-for-printing

16. maí 2007

Breytingar á reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurskoðun á reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Gert er ráð fyrir að nýjar reglur taki gildi innan skamms. Einkum er um tæknilegar breytingar að ræða sem ekki er ástæða til að fjölyrða um. Endurskoðunin felur þó einnig í sér tvær breytingar sem nauðsynlegt er að skýra.

Hin fyrri er sú að ákveðið hefur verið að breyta heitinu á þeirri fyrirgreiðslu Seðlabankans sem stýrivextirnir gilda um, þ.e. lánum bankans til fjármálafyrirtækja. Til þessa hafa þau verið kölluð endurhverf verðbréfaviðskipti. Í reynd hefur þó ekki verið um endurhverf verðbréfaviðskipti að ræða heldur lán gegn veði. Héðan í frá verða þessi viðskipti kölluð sínu rétta nafni og stýrivextirnir eiga hér eftir sem hingað til við aðalfyrirgreiðsluform Seðlabankans við fjármálafyrirtæki, þ.e. lán gegn veði.

Hin breytingin snýr að framsetningu stýrivaxta. Hingað til hafa stýrivextir sem Seðlabankinn hefur tilkynnt og birt í vaxtatilkynningum sínum í reynd verið ávöxtun á ári en ekki nafnvextir. Nú hefur verið ákveðið að framvegis verði allir vextir Seðlabankans settir fram og tilkynntir sem nafnvextir. Þegar vextir eru reiknaðir oftar en einu sinni ári eru nafnvextir lægri tala en ávöxtun. Frá desember sl. hefur ávöxtun á veðlánum sem Seðlabankinn veitir fjármálafyrirtækjum verið 14,25% á ári og stýrivextir bankans verið sagðir 14,25%. Flestir aðrir seðlabankar hafa annan hátt á, þ.e. að birta stýrivexti sem nafnvexti. Vegna þessa hefur samanburður stýrivaxta Seðlabanka Íslands og stýrivaxta annarra seðlabanka verið villandi. Nafnvextir lána Seðlabankans gegn veði sem samsvara 14,25% ávöxtun eru t.d. 13,31%. Ef bera á stýrivexti Seðlabanka Íslands saman við stýrivexti annarra seðlabanka er því eðlilegt að nota 13,31% nú en ekki 14,25%.

Þegar nýjar reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann taka gildi er í ráði að breyta um leið framsetningu stýrivaxta. Í því felst ekki breyting á stýrivöxtum.

Nr. 9/2007
16. maí 2007

Til baka