logo-for-printing

21.12.2006

Seðlabanki Íslands hækkar stýrivexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í 14,25%. Ákvörðun bankastjórnar ber að skoða í ljósi greiningar í Peningamálum sem gefin voru út 2. nóvember sl. Hún benti til þess að peningalegt aðhald væri enn ekki orðið nóg til þess að verðbólgumarkmið bankans næðist á næstu tveimur árum. Á þeim tíma var þó ákveðið að fresta vaxtahækkun að sinni í ljósi þess að stýrivextir væru orðnir töluvert háir og að verðbólguhorfur hefðu batnað verulega frá því um miðbik ársins. Bætt var við vaxtaákvörðunardegi í dag. Ef tiltækar upplýsingar nú gæfu ekki tilefni til annars yrðu stýrivextir hækkaðir.

Verðbólga hefur hjaðnað frá því að Seðlabankinn birti spá sína í nóvember og er mun minni en horfur voru á um miðbik ársins. Að gefnu tiltölulega stöðugu gengi krónunnar eru nú horfur á nokkru minni verðbólgu framan af spátímanum en fólst í nóvemberspánni. Þessi þróun er ekki síst árangur aðhaldssamrar peningastefnu sem mun halda áfram að hafa þau áhrif sem henni er ætlað. Eigi að síður er það mat bankastjórnar að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi ekki batnað umfram það sem spáð var í byrjun nóvember. Verðbólga er enn langt yfir markmiði bankans og þótt úr henni dragi talsvert á komandi mánuðum eru enn horfur á að hún verði yfir markmiði næstu tvö árin, ekki síst ef horft er framhjá beinum áhrifum fyrirhugaðrar lækkunar neysluskatta á fyrri hluta næsta árs.

Innlend eftirspurn virðist hafa vaxið álíka hratt á þriðja fjórðungi ársins og gert var ráð fyrir í spá Seðlabankans í nóvember. Vísbendingar eru um að einkaneysla kunni jafnvel að vaxa hraðar á yfirstandandi ársfjórðungi en þeim þriðja. Gríðarleg spenna er á vinnumarkaði og virðist hún hafa aukist í byrjun vetrar. Viðskiptahallinn sló enn eitt met á þriðja fjórðungi ársins og litlar líkur eru á umtalsverðum bata á þeim fjórða. Því stefnir í meiri viðskiptahalla á árinu í heild en spáð var í nóvember. Viðskiptahallinn og tölur af vinnumarkaði gætu bent til þess að innlend eftirspurn vaxi hraðar í ár en mælst hefur enn sem komið er og þar með til vanmats á framleiðsluspennu og verðbólguþrýstingi eins og fram kom í nóvemberhefti Peningamála.

Raunstýrivextir eru orðnir háir í sögulegu samhengi. Miðlun þeirra um vaxtarófið hefur hins vegar ekki verið eins greið og vonast var eftir og áhrifanna því ekki gætt af fullum þunga. Aðhaldssöm peningastefna hefur hins vegar stuðlað að stöðugu gengi krónunnar, þrátt fyrir óvissar horfur og mikinn viðskiptahalla. Verðbólguhorfur og aðhaldsstig peningastefnunnar eru mjög háð því að gengi krónunnar verði áfram tiltölulega sterkt.

Með hækkun vaxta nú staðfestir Seðlabankinn þann ásetning sinn að ná varanlegum tökum á verðbólgunni. Bankinn mun ekki slaka á aðhaldi fyrr en hann sannfærist um að verðbólguhorfur til langs tíma samrýmist verðbólgumarkmiðinu.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um vexti verður birt fimmtudaginn 8. febrúar 2007 eins og áður hefur verið tilkynnt.

Nr. 47/2006
21. desember 2006

Til baka