logo-for-printing

09. nóvember 2006

Fitch Ratings staðfestir lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands AA-/ AAA

 

Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að það hefði staðfest lánshæfismat ríkissjóðs Íslands. Lánshæfiseinkunn fyrir erlendar langtímaskuldbindingar er AA- (AA mínus) og fyrir innlendar skuldbindingar AAA og horfur fyrir matið eru neikvæðar. Lánshæfiseinkunnin F1+ fyrir erlendar skammtímaskuldbindingar er einnig staðfest ásamt landseinkunninni (e. country ceiling ratings) AA. 
 

Í frétt Fitch segir í lauslegri þýðingu:

 

„Staðfesting á núgildandi lánshæfismati með neikvæðum horfum endurspeglar þá staðreynd að íslenska hagkerfið er enn mjög skuldsett og á eftir að takast á við nokkur af meginatriðunum sem dregin voru fram í febrúar við síðasta mat”, segir Paul Rawkins, sérfræðingur hjá Fitch Ratings í London. “Fitch lítur jákvæðum augum á undangengna þróun í fjármálakerfinu sem miðað hefur að því að auka traust og trúverðugleika, en Fitch hefur áfram áhyggjur af þjóðhagslegu ójafnvægi og hvernig aðlögunin gæti orðið á endanum.“

 

Fitch bendir á að íslenska hagkerfið sé í miðju þenslutímabili sem sé drifið áfram á framboðshliðinni með miklum fjárfestingum í ál- og orkuiðnaði. Til lengri tíma litið er búist við að stóriðjuframkvæmdirnar muni breikka útflutningsgrunn þjóðarinnar, auka gjaldeyristekjur og gera þar með erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins sjálfbærari. Til skamms tíma hafa stóriðjuframkvæmdirnar reynt töluvert á þjóðhagslegan stöðugleika, og breytingar á húsnæðismarkaði juku enn á vandann ásamt hraðri útrás íslensku bankanna og fyrirtækja, sem hefur verið fjármögnuð með mikilli lántöku á erlendum mörkuðum til tiltölulega skamms tíma.

 

Fitch segir að íslensku bankarnir hafi litið á nýja lánshæfismatið í febrúar, þ.e. þegar horfum fyrir ríkissjóð var breytt úr stöðugum í neikvæðar, sem viðvörunarmerki. Þeir hafi því talið sér skylt að endurskoða útrásaráform sín og tryggja erlenda endurfjármögnun sína til lengri tíma en mörg lán þeirra falla á gjalddaga á næsta ári. Með velheppnaðri endurfjármögnun hefur verulegri óvissu til skamms tíma verið eytt, ekki eingöngu hvað bankana sjálfa varðar heldur fyrir allt íslenska hagkerfið. Hins vegar er enn alvarlegt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum sem gæti tekið mun lengri tíma að leysa úr.

 

Með snarpri gengisfellingu krónunnar á fyrra hluta þessa árs hefur verðbólgan farið í 7%-8%. Seðlabankinn brást við með því að hækka stýrivexti í 14%, jafnframt því sem hið opinbera skilaði afgangi sem nam 5,5% af VLF árið 2005. Samt sem áður segir Fitch að jafnvægi í hagkerfinu sé enn nokkuð langt undan. Stjórnvöld takist enn á við mikla heildareftirspurn og styrkingu krónunnar að nýju í kjölfar skammtímainnflæðis á fjármagni vegna mikils vaxtamunar við útlönd. Einkaneysla og fjárfesting hafa brugðist hægt við hertu aðhaldi  og viðskiptahallinn fer úr 16% af VLF yfir 20% á árinu. Við það munu erlendar skuldir hækka í 360% af VLF sem er meira en þreföld skuldastaða  árið 2000.

 

Fitch viðurkennir að hrein erlend skuldahlutföll eru lægri ef tekið er tillit til hraðrar eignamyndunar erlendis, en bendir á að þar sem skuldir námu 357% af erlendum tekjum þjóðarbúsins árið 2005 er Ísland skuldugast af öllum löndum sem Fitch metur til lánshæfi. Þessi þrönga staða ásamt miklu ójafnvægi í hagkerfinu gerir landið berskjaldað fyrir ytri áföllum svo sem hækkun vaxta erlendis og/eða skyndilegum breytingum á viðhorfum fjárfesta. Slík framvinda og líkleg viðbrögð við þeim gæti ollið mun dýpri kreppu en því skammvinna samdráttarskeiði sem fylgdi í kjölfar svipaðrar fjárfestingaruppsveiflu á seinni hluta tíunda áratugarins með óhagstæðum afleiðingum fyrir heimili, fyrirtæki og banka sem eru mun skuldsettari nú en áður var.

 

Fitch segir að á móti vegi að Ísland sé þróað ríki með sterkum og gagnsæjum stofnunum. Löng hefð sé fyrir pólitískum stöðugleika með samsteypustjórnum ásamt þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Tengt þessum grunnþáttum hafa kerfisumbætur eftir miðjan tíunda áratuginn, sterk staða ríkisfjármála og upptaka flotgengis búið hagkerfið betur undir að þola ágjöf og aðlagast breyttum aðstæðum. Þrátt fyrir þetta haldgóða umhverfi, telur Fitch að Ísland þurfi að sýna fram á  það geti tekist á við hagsveiflur þegar skuldir aukast enn frekar, eins og til dæmis Nýja Sjáland hefur gert en það er með álíka lánshæfismat. 

 

Skýrsla Fitch verður tilbúin fyrir áskrifendur á heimasíðu fyrirtækisins innan skamms og mun Fitch halda símafund á mánudaginn 13. nóvember klukkan 15:00 til að kynna álit sitt.

 

Nánari upplýsingar veitir bankastjórn í síma 569-9600.



Nr. 41/2006
9. nóvember 2006

 

Til baka