logo-for-printing

03.08.2006

Fréttatilkynning Moody's vegna útkomu ársskýrslu þeirra um Ísland

Í árlegri skýrslu matsfyrirtækisins Moody’s Investors Service um Ísland segir að Aaa lánshæfiseinkunn landsins byggi á sterkum stofnunum, lágum skuldum ríkissjóðs og getu til að standast áföll eins og reynslan hafi sýnt.

Landseinkunnin Aaa (e. country ceiling rating) fyrir skuldabréf í erlendri mynt er dregin af Aaa einkunninni sem er gefin fyrir skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs í erlendri mynt. Landseinkunnin endurspeglar það mat að áhætta á greiðslufalli eða greiðslustöðvun vegna skuldabréfa ríkissjóðs sé í lágmarki.

Ísland er auðugt, þróað iðnríki þar sem umfangsmiklar aðgerðir til að skjóta fleiri stoðum undir efnahagsstarfsemina eru vel á veg komnar en þær munu auka enn auð og styrk hagkerfisins, segir höfundur skýrslunnar, Joan Feldbaum-Vidra.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu þætti, bendir skýrsluhöfundur á að ójafnvægi hafi myndast sem komi fram í háum og vaxandi erlendum skuldum, sérstaklega hjá bankakerfinu.

Sérfræðingur Moody’s bendir á að þessi þróun, ásamt hækkandi alþjóðlegum vöxtum og breyttu áhættumati fjárfesta, hafi vakið áhyggjur markaðsaðila vegna þess að íslenska bankakerfið er háð fjármögnun erlendis frá og því hætta á kerfisáfalli ef bönkunum tækist ekki að endurfjármagna erlend lán sín.

Sérfræðingur Moody’s segir matsfyrirtækið telja að markaðsaðilar hafi ofmetið hættuna á bankakreppu í landinu. Erlendu lánin hafi verið notuð til að fjármagna erlendar fjárfestingar í háum gæðaflokki auk þess sem erlendar eignir og skuldir bankanna séu í góðu samræmi.

Sérfræðingur Moody’s bendir á að fjármálakerfinu á Íslandi sé vel stýrt og eiginfjárhlutfall sem og lausafjárstaða góð. Fjármálakerfið sé vel í stakk búið til að mæta talsvert stórum skellum samtímis vegna hraðrar gengisaðlögunar, lækkunar eignaverðs og rýrnunar á gæðum eignasafns.

Ef svo ólíklega vildi til að bankakreppa skylli á þá væri ríkisvaldið vel í stakk búið til að bregðast við, en skuldir ríkissjóðs eru um 22% af VLF sem er um það bil helmingi minna en meðaltal annarra landa með Aaa lánshæfiseinkunn, segir sérfræðingur Moody’s. Við þetta má bæta að landsframleiðsla upp á 50 þúsund bandaríkjadali á mann sé mjög mikil jafnvel í samanburði við önnur lönd sem hafa Aaa lánshæfiseinkunn. Þetta beri vott um þróaða efnahagsstarfsemi og öflugt stofnanakerfi sem er afgerandi þáttur í getu landsins til að bregðast við áföllum.

Feldbaum-Vidra er höfundur að skýrslu um fjármálastöðugleika á Íslandi sem kom út í apríl sl., „Iceland’s Solvency and Liquidity Are Not at Risk“ (Hætta steðjar ekki að greiðsluhæfi og lausafjárstöðu Íslands).

Skýrsla matsfyrirtækisins, „Iceland: 2006 Credit Analysis“ er árleg endurskoðun í þágu markaðsaðila og felur ekki í sér breytingar á lánshæfismati.

Nánari upplýsingar veitir Davíð Oddsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

Nr. 27/2006
3. ágúst 2006
Til baka