logo-for-printing

21. febrúar 2006

Fitch breytir horfum á lánshæfismati ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar

Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að horfum fyrir lánshæfismat ríkissjóðs Íslands vegna skuldbindinga í innlendri og erlendri mynt hafi verið breytt úr stöðugum í neikvæðar. Lánshæfiseinkunn fyrir erlendar langtímaskuldbindingar var staðfest AA- (AA mínus) og fyrir innlendar skuldbindingar AAA. Einnig var landseinkunn (e. country ceiling ratings) staðfest AA og lánshæfiseinkunnin fyrir erlendar skammtímaskuldbindingar F1+.

Í frétt Fitch segir eftirfarandi í lauslegri þýðingu:

                Ástæða breytinga á horfum, úr stöðugum í neikvæðar, eru „vísbendingar um talsvert aukna áhættu í þjóðarbúskapnum vegna ósjálfbærs viðskiptahalla og hratt vaxandi hreinna erlendra skulda”, segir Paul Rawkins sérfræðingur í lánshæfismati ríkissjóða hjá Fitch.

Fitch segir að þótt einkenni ofhitnunar í hagkerfinu hafi verið til staðar um nokkurt skeið, svo sem vaxandi verðbólga, hröð útlánaaukning, hækkandi eignaverð, verulegur viðskiptahalli og stigvaxandi erlend skuldasöfnun, þá hafi þróun þessara þátta verið óhagstæðari en matsfyrirtækið bjóst við. Útlánavöxtur yfir 30% á ári heldur áfram af fullum krafti, viðskiptahallinn á árinu 2005 varð 15% af vergri landsframleiðslu og hreinar erlendar skuldir fóru vel yfir 400% af útflutningstekjum.

Rawkins segir að á meðan ekki sé gripið til samstilltra aðgerða hafi líkur á harðri lendingu hagkerfisins aukist sem aftur vekur spurningar um hvernig fjármálakerfinu í heild muni farnast við slíkar aðstæður og um afleiðingar fyrir ríkissjóð.

Matsfyrirtækið viðurkennir að mikilvægar kerfisumbætur frá 10. áratugnum, m.a. flotgengisstefna árið 2001 og bætt eftirlit með fjármálastarfsemi, hafi búið hagkerfið undir að standast áföll betur en áður. Ennfremur hafa fjármál hins opinbera haldið áfram að styrkjast verulega – spáð er að skuldir hins opinbera muni lækka og verða 25% af vergri landsframleiðslu árið 2006. Þetta styrkir lánshæfismat ríkissjóðs. Hins vegar er hagkerfið að öðru leyti mjög skuldsett um þessar mundir. Áætlað er að lán til einkageirans, sem að miklu leyti eru vísitölu- eða gengisbundin, hafi numið 218% af VLF í árslok 2005 og höfðu þau tvöfaldast á þremur árum. Engu að síður halda íslenskir bankar og fyrirtæki áfram með metnaðarfullar áætlanir sínar um útrás til annarra landa og auka erlendar skuldir í því ferli sem aldrei fyrr.

Fitch gagnrýnir núverandi efnahagsstefnu og telur að of mikið hafi verið lagt á peningamálastefnuna á meðan ríkisfjármálin hafa setið hjá. Þar sem heimilin hafa notið greiðs aðgangs að langtíma húsnæðislánum hafa tólf stýrivaxtahækkanir síðan í maí 2004 aðeins náð að hækka raungengi krónunnar og auka viðskiptahallann. Ástæðan fyrir aðgerðaleysi ríkisvaldsins er sú skoðun stjórnvalda að núverandi ójafnvægi eigi rætur sínar að rekja til einkageirans og muni lagast af sjálfu sér í fyllingu tímans. Samkvæmt þessu reka stjórnvöld ríkissjóð með litlum afgangi í þessari efnahagssveiflu og hyggjast standa við kosningaloforð sitt um að lækka skatta á árunum 2006-2007.

Hlutfallslegar skuldir hins opinbera á Íslandi eru sambærilegar meðaltali annarra ríkja sem hafa AA lánshæfiseinkunn og hrein erlend skuldastaða hins opinbera hefur lækkað um helming frá því er hún náði hámarki árið 2002, þá 70% af útflutningstekjum. Þrátt fyrir þetta segir Fitch að einn mikilvægasti lærdómurinn sem draga má af Asíukreppunni sé sá að ríki sem virðast búa við traust ríkisfjármál taka mikla áhættu með því að líta framhjá ójafnvægi í einkageiranum. Hrein erlend skuldastaða Íslands er hærri en nokkurs annars lands sem metið er af Fitch. Erlend lausafjárstaða, þ.e. auðseljanlegar erlendar eignir (e. liquid external assets) sem hlutfall af stuttum erlendum skuldum (e. liquid external liabilities), er einna lökust, sérstaklega ef erlendar eignir bankanna eru undanskildar. Fitch gerir sér grein fyrir að erlendar eignir íslensku bankanna hafa vaxið umtalsvert en minnir á að þeir eru mjög háðir erlendri fjármögnun og mega illa við útilokun frá alþjóðlegum fjármálamörkum um nokkurt skeið.

Fitch staðhæfir að öðrum löndum með háa einkunn, svo sem Ástralíu og Nýja Sjálandi, séu settar svipaðar skorður varðandi erlenda fjármögnun þótt þær séu ekki jafn miklar og á Íslandi. Fitch heldur því jafnframt fram að upplýsingar um samsetningu og áhættuvarnir erlendra skulda séu mun gleggri hjá þeim en á Íslandi. Ennfremur hafi hagkerfi Ástralíu og Nýja Sjálands staðist álagsprófanir yfir langt tímabil en Ísland eigi eftir að láta á það reyna við meiri skuldsetningu. Óvissa um þetta skýrir að töluverðu leyti þá ákvörðun fyrirtækisins að endurskoða horfur um lánshæfismat íslenska ríkisins þannig að þær verða neikvæðar í stað þess að vera stöðugar.

Sérstök fréttaskýring verður birt á heimasíðu Fitch seinna í dag og mun Fitch halda símafund á morgun, miðvikudag 22. febrúar klukkan 14:30 GMT til að ræða álit sitt.

Nánari upplýsingar veita Eiríkur Guðnason bankastjóri og Sturla Pálsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 6/2006
21. febrúar 2006


 

Til baka