logo-for-printing

26.01.2006

Seðlabanki Íslands hækkar vexti um 0,25 prósentur

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur, í 10,75%. Þetta er tólfta vaxtahækkun Seðlabankans frá maí 2004 og kemur í kjölfar 0,75 prósentna hækkunar í lok september og 0,25 prósentna hækkunar í byrjun desember 2005. Í inngangi Peningamála 2005/4 sem gefin voru út 2. desember sl. var greint frá því að vaxtahækkunin í september hafi skilaði sér að fullu sem hækkun raunstýrivaxta. Í kjölfarið hafi áhrifa stýrivaxtahækkana bankans loks tekið að gæta í verðtryggðum vöxtum. Eigi að síður væri ótímabært að fagna sigri í baráttunni við verðbólguna. Samkvæmt verðbólguspánni sem birt var í Peningamálum í desember sl. yrði verðbólga töluvert yfir markmiði Seðlabankans á næstu tveimur árum, Sú spá byggðist á óbreyttum stýrivöxtum frá því fyrir vaxtahækkunina í byrjun desember og óbreyttu gengi. Fráviksspár með breytilegu gengi bentu til þess að stýrivaxtaþróun samkvæmt meðalspá greiningardeilda kynni að reynast ófullnægjandi til þess að ná markmiðinu. Horfur um verðbólguþrýsting til langs tíma voru einnig taldar neikvæðar.

Seðlabankinn hefur endurmetið verðbólguhorfurnar í ljósi framvindu efnahagsmála undanfarna tvo mánuði og telur þær enn óviðunandi. Í desember og janúar reyndist verðbólga nokkru meiri en fólst í desemberspá bankans.

Gengi krónunnar hefur einnig lengst af verið ívið lægra en reiknað var með í spánni. Þjóðhagsreikningar fyrir þriðja ársfjórðung 2005 og vísbendingar um vöxt eftirspurnar á síðasta fjórðungi ársins sýna sem fyrr afar hraðan vöxt eftirspurnar og mun meiri en samrýmst getur jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þá hefur dregið hægar úr spennu á íbúðamarkaði en vonir stóðu til. Þótt áhrifa vaxtahækkana Seðlabankans sé tekið að gæta í ávöxtunarkröfu verðtryggðra langtímaskuldabréfa skortir töluvert á að hækkun kröfunnar komi fram í vöxtum fasteignaveðlána eins og tilefni er til. Vöxtur útlána lánastofnana, hvort heldur fasteignaveðlána eða annarra útlána, er enn mjög hraður. Þróun á vinnumarkaði undanfarna mánuði er einnig vaxandi áhyggjuefni.

Undanfarna þrjá mánuði hafa komið fram skýrar vísbendingar um aukið launaskrið, eins og oftast gerist þegar atvinnuleysi verður jafn lítið og um þessar mundir. Horfur eru á að launakostnaður hækki töluvert meira á næstu árum en samrýmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans nema framleiðni aukist mun hraðar en gert er ráð fyrir í spám bankans, en það verður að telja ósennilegt.

Hæsta raungengi frá því á níunda áratugnum og meiri viðskiptahalli en áður hefur mælst benda til þess að umtalsverður verðbólguþrýstingur kunni að vera framundan, jafnvel handan þess sjóndeildarhrings sem spár Seðlabankans ná jafnan til. Peningastefnan verður að bregðast tímanlega við þessum aðstæðum því ella verður að beita enn harkalegra aðhaldi síðar. Eins og nú horfir kann Seðlabankinn því að þurfa að hækka vexti enn frekar síðar á þessu ári.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands um vexti verður að óbreyttu birt fimmtudaginn 30. mars n.k. um leið og næsta hefti Peningamála verður gefið út.

Nr. 4/2006
26. janúar 2006

Til baka