logo-for-printing

02. desember 2005

Erindi Jóns Sigurðssonar bankastjóra um verkefni Seðlabankans

Erindi Jóns Sigurðssonar, á fundi Sambands ísl. samvinnufélaga, er svohljóðandi:

Ágætu samvinnumenn

Það er mér ánægja og heiður að fá að ræða við ykkur. Gott samstarf og gömul kynni rifjast upp þegar ég kem í ykkar hóp, og fyrir það allt vil ég þakka.

Seðlabanki Íslands starfar í tengslum við peningamarkaði, fjármálamarkaði og viðskiptalíf landsmanna. Seðlabankinn leggur áherslu á að treysta þau skilyrði sem ráða á mörkuðum, meðal annars jafnræði aðila. Þetta mótar trúverðugleika Seðlabankans, en í samstarfi markaðsaðila skiptir trúverðugleiki meginmáli.

Í dag, föstudaginn 2. desember 2005, efnir Seðlabanki Íslands til fjölmiðlafundar til að tilkynna mat á stöðu og horfum í íslenskum efnahags- og peningamálum. Stjórnendur og starfsmenn Seðlabankans tjá sig ekki um þessi mál í aðdraganda slíkrar tilkynningar. Í orðum mínum nú sneiði ég því hjá öllu sem tengist þessu beint.

Seðlabanka Íslands er ætlað það meginhlutverk að tryggja stöðugt verðlag og sem jafnasta þróun þess. Ég ætla að nefna nokkra þætti efnahagsmálanna til skýringar.

Í fyrsta lagi er vísitala neysluverðs, sem mælistika á verðlagsþróun, grundvöllur allra umræðna um efnahagsmál, stöðu, þróun og horfur.

Í öðru lagi skiptir gengisvísitalan meginmáli, en hún sýnir sameiginlegt vegið gildi erlendra gjaldmiðla andspænis íslenskri krónu.

Í þriðja lagi er atvinnuástandið í landinu, en það hefur áhrif á framvindu launamála og almennrar neyslu og á framvindu verðbólgunnar. Af atvinnuástandinu má einnig draga ályktanir um hvað framundan er í efnahagsmálum.

Í fjórða lagi veldur útlánaþróun fjármálastofnana miklu um framvindu efnahagsmála. Aukning eða samdráttur útlána er mikilvæg vísbending um hagþróunina framundan.

Í fimmta lagi er að nefna þróun eignaverðs og umsvif á þeim vettvangi. Þetta er alkunn vísbending um komandi verðbólgu framundan. Þessi þáttur skýrir mestan hluta verðbólgunnar á þessu ári.

Í sjötta lagi eru umsvif ríkissjóðs og hlutföll milli tekna og útgjalda hans, helstu ríkisstofnana og stærstu sveitarfélaga. Hér er ekki aðeins um ríkissjóð að ræða, heldur einnig t.d. Landsvirkjun og Íbúðalánasjóð, og öll stærstu sveitarfélögin.

Í sjöunda lagi nefni ég viðskiptahallann, en hér hefur lengi verið viðskiptahalli og aldrei meiri en um þessar mundir. Um það bil helmingur viðskiptahallans tengist stórframkvæmdum, en hitt tengist beint aukinni einkaneyslu.

Í áttunda lagi eru flestar breytur í efnahagsmálum samanburður og hlutföll. Meðal annars berum við okkur saman við aðstæður erlendis. Vaxtastig hérlendis borið saman við vexti í viðskiptalöndum gefur mikilvægar upplýsingar, og gengi íslenskrar krónu byggist meðal annars á gengisþróun viðmiðunargjaldmiðlanna.

Seðlabanki Íslands stefnir að því að efla frjálsa fjármála- og peningamarkaði sem mest. Peningamarkaðir eru ungir hérlendis og mikilvægt að ákvarðanir miði að því að gera þá sem best skilvirka.

Greiðslukerfi sem þjóna fjármálakerfinu með öruggum hætti eru grundvöllur í nútímaviðskiptalífi. Seðlabankinn leggur áherslu á samningsgerð um greiðslukerfi við viðskiptabankana, Reiknistofu bankanna og Fjölgreiðslumiðlun. Og Seðlabankinn starfar náið með Fjármálaeftirlitinu, Kauphöllinni og Verðbréfaskráningu Íslands.

Fjármálamarkaðirnir skiptast í nokkra sérmarkaði. Seðlabankinn tengist helst millibankamörkuðum, það er að segja krónumarkaði og gjaldeyrismarkaði.

Aðgerðir Seðlabankans birtast einkum með endurhverfum viðskiptum á millibankamarkaði með krónur, en einnig með innstæðubréfum sem viðskiptaaðilum standa til boða, og með viðskiptareikningum þeirra í Seðlabankanum. Meðal eigenda viðskiptareikninga skiptir ríkissjóður langmestu máli.

Í hagstjórnaraðgerðum Seðlabanka Íslands skipta endurhverf viðskipti mestu máli. Endurhverf viðskipti eru útlán til banka og fjármálastofnana sem veitt eru vikulega og ganga síðan aftur til baka með reglubundnum hætti og mynda þannig samfellda keðju. Með þeim sér Seðlabankinn fjármálakerfinu fyrir lausu fé, og umfang þessara viðskipta ber vitni um framvindu í hagkerfinu á líðandi stund.

Stefna Seðlabankans í þessum málum nefnist peningamálastefna, og aðgerðir bankans til að hafa áhrif á framvinduna eiga sér stað á sviði peningamála og peningamarkaða.

Stefna Seðlabanka Íslands, sem mótuð er með samkomulagi við ríkisstjórnina, er að verðbólga samkvæmt vísitölu neysluverðs nemi að jafnaði sem næst 2,5 % á nýliðnum 12 mánuðum hverju sinni. Svokallað verðbólgumarkmið er þá 2,5 % á ári. Fari verðbólga niður fyrir 1 % eða upp fyrir 4 % ber Seðlabankanum að tilkynna opinberlega um aðgerðir sem bankinn hyggst grípa til og um mat sitt á því hvernig og hvenær aðgerðirnar muni skila nægilegum árangri.

Verðbólgan er metin aftur á bak með meðalverðbreytingu helstu neysluvara á nýliðnum 12 mánuðum hverju sinni. En aðgerðir Seðlabankans í peningamálum miðast hins vegar við spá um ókominn tíma allt að tveimur árum framundan. Talið er að aðgerðir Seðlabankans þurfi þennan tíma til að ná að hafa mótandi áhrif.

Þessar ákvarðanir eru teknar í óvissu og við áhættu um áhrif annarra afla á sama tíma framundan. Þetta starf er unnið í augsýn almennings og bestur árangur næst með því að unnið sé fyrir opnum tjöldum og með viðurkenndum fræðilegum og faglegum sjónarmiðum og sérfræðivinnu. Markmið og skyldur Seðlabankans eru opinber og það fer ekki fram hjá neinum ef bankinn nær ekki árangri með aðgerðum sínum.

Lengi vel lögðu seðlabankar áherslu á svonefnda bindiskyldu í aðgerðum sínum. Nú er miklu meiri áhersla á vaxtaákvörðunum. Hér á landi skipta þá langmestu máli svonefndir stýrivextir, kallaðir svo vegna áhrifanna af þeim sem miðlast út um hagkerfið, en stýrivextir eru útlánsvextir á endurhverfum viðskiptum.

Stýrivextir eru helsta tækið hérlendis sem víðar í stjórnun peningamála. Seðlabanki Íslands hefur verið knúinn til þess að hækka stýrivexti aftur og aftur á undanförnum misserum. Ástæða þessa er þær verðbólguspár sem gerðar hafa verið hér á þessum tíma og þær hafa verið birtar almenningi jafnóðum.

En Seðlabankinn hefur einnig gripið til annarra aðgerða. Reglum um bindiskyldu var breytt af ástæðum sem ekki tengjast verðbólguþróuninni. Bankinn hefur aukið gjaldeyrisforðann og það helgast af viðurkenndri nauðsyn. Ég nefndi áður samningsgerð um greiðslukerfi sem ekki tengist verðbólguþróuninni. Seðlabankinn hefur líka gerbreytt innbyrðis-hlutföllum einstakra vaxtaflokka sinna, þannig að innlánsvextir Seðlabankans hafa hækkað miklu meira en stýrivextirnir sem eru útlánsvextir. Þannig reynir bankinn að draga úr vexti útlána og vexti peningamagns. Með þessu eykst virkni vaxtaákvarðana, flökt á millibankamarkaði minnkar og stuðlað er að sömu markmiðum og hækkanir stýrivaxta stefna að.

Auðvitað skipta nafnvextir ekki öllu máli. Jafnan verður að skoða hverjir raunvextirnir eru, það er að segja vextir að frádreginni verðbólgu. Auk þess hafa vextir erlendis verið í sögulegu lágmarki og það hefur sín áhrif á vaxtamuninn milli Íslands og nágrannalandanna.

Gengi krónunnar er frjálst markaðsgengi, rétt eins og almennir vextir eru frjálsir í viðskiptalífinu. Gengið skiptir miklu máli í allri efnahagsþróun og verðbólguþróun. En það er nauðsynlegt að ítreka að Seðlabankinn ræður ekki yfir og reynir ekki að ráða gengisþróuninni, og ævinlega verka margir áhrifaþættir á gengið í senn. Upp á síðkastið eru erlendar útgáfur skuldabréfa í íslenskum krónum skýrt dæmi um allsendis óháð ytri öfl á þessu sviði.

En nafngengi segir ekki alla sögu. Atvinnulífið beinir athygli sinni að raungenginu af augljósum ástæðum. Nafngengishækkanir á íslensku krónunni eru þannig ekki aðalvandamálið í atvinnulífinu heldur breytingar á raungengi, það er að segja samanburðargrunni á launakostnaði og verðlagsþróun hér og erlendis, en þessum þáttum ráða almenn og djúpstæð efnahagsöfl. Seðlabankinn er ekki undirrót að þeirri atburðarás.

Aðstæður hérlendis, og ekki síður samhengi við aðstæður erlendis, valda því að peningamálaaðgerðum Seðlabanka Íslands hefur verið miðlað í gegnum gengi krónunnar. Allir hafa áhyggjur af því hvernig staða útflutnings- og samkeppnisgreina versnar við þetta. Í þessu efni verður að vega og meta mismunandi vonda kosti og erfiðleika þegar bólgan er þegar fyrir hendi og þrýstir á. Mikil þensla og viðskiptahalli geta kallað á gengisfall og verðbólgu.

Um það er að velja að fresta vandanum og fá hann síðan í andlitið með óðaverðbólgu, röskun á öllum viðskiptum og átökum á vinnumarkaði - eða að takast á við erfiðleika strax og geta síðan vænst þess að ná þokkalegri lendingu þegar þensluvaldar slakna og um hægist í hagkerfinu.

Sagt er að trúverðugleiki Seðlabankans sé á prófi þegar verðbólguþróunin flæðir upp yfir yfirlýst verðbólgumarkmið. En hér koma mörg önnur áhrifaöfl líka við sögu. Menn gætu alveg eins spurt sig um trúverðugleika sveitarfélaga og opinberra stofnana, að því er lýtur að afstöðu til stöðugleika í efnahagsmálum.

Spágerð um komandi verðbólguþróun er flókin vísindi. Seðlabanki Íslands hefur stundað spágerð og vinnslu þjóðhagslíkans um árabil. Og sérfræðingar Seðlabankans vinna að því að endurmeta reynsluna og greina þau frávik sem orðið hafa milli spár og reyndar á liðnum tíma og læra af þeim.

Sérfræðingar hafa sett fram formúlur til að skilgreina aðgerðir í peningamálum. Þá er sagt að breytingar á stýrivöxtum á hverjum tíma eigi að mæta áætlun um verðbólgu umfram verðbólgumarkmið og efnahagsumsvifum umfram áætlað jafnvægi, eins og þessir þættir eru áætlaðir á næstu tveimur árum. Menn sjá í hendi að það eru óvissuþættir í slíkum áætlunum.

Önnur markmið Seðlabanka Íslands eru að stuðla að öryggi og stöðugleika fjármálakerfisins og að annast um gjaldeyriskerfi og gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Hann er banki ríkisins og banki bankanna, annast innlend og fjölþjóðleg samskipti, meðal annars við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðagreiðslubankann, við aðra seðlabanka og alþjóðleg matsfyrirtæki, og loks sér Seðlabankinn um myntsláttu og seðlaprentun Íslendinga.

Að undanförnu hefur verið rætt um ýmsar leiðir til viðbragða í hagstjórninni. Sumir segja að Íslendingar eigi að taka upp evru. Þá er algerlega ótengdum og ólíkum málefnum slegið saman, svo ekki sé nú meira sagt, og upptaka evru mun taka mörg ár. Menn segja að Seðlabankinn eigi að kaupa miklu meira af erlendum gjaldeyri en verið hefur, en þá hlýtur lausafjárþenslan í íslenskum krónum að aukast að sama skapi. Menn segja að stórauka eigi bindiskyldu á ný. En aukin bindiskylda er aðeins eitt tímabundið þrep og verkar að öðru leyti alveg eins og vaxtahækkun, fyrir utan að rota nokkra sparisjóði í leiðinni.

Ég hlýt að þakka fyrir það að enn hefur enginn krafist þess að Seðlabanki Íslands fari að reyna að skipta sér af gengisþróun erlendra gjaldmiðla á alþjóðavettvangi eða af ákvörðunum erlendra banka um vexti erlendis. Og það er líka þakkarvert að enginn heimtar að Seðlabankinn breyti fjárlögum íslenska ríkisins, hægi á verklegum framkvæmdum á Austurlandi eða yfirtaki umsjón útlánaákvarðana á fasteignamarkaðinum.

Í þenslunni að undanförnu er Seðlabanki Íslands fyrst og fremst boðberi með viðvörunarmerki. Við erum viti sem varar sjófarendur við hættum á klettóttri strönd. Það er misskilningur að tala aðeins um afleiðingarnar af blysmerkjunum því að undirrót vandans í atvinnulífinu er annars staðar.

Seðlabanki Íslands er viðskiptamiðstöð og öryggismiðstöð í fjármálakerfinu. Með verðbólgumarkmiðið í huga er Seðlabankinn þjónustustofnun við almenning í því að hann stuðlar að jafnvægi um verðgildi í viðskiptalífinu og varðandi kaupmátt alls almennings.

Í lögum er Seðlabankanum fengið stofnunarsjálfstæði gagnvart pólitískum stjórnvöldum, en aðalmarkmið bankans eru lögákveðin. Í öllu starfi sínu leggur Seðlabanki Íslands megináherslu á sjálfstæði sitt, ábyrgt málsvar gagnvart almenningi og öðrum stjórnvöldum, á fagleg vinnubrögð, vandaða fræðivinnu og málefnalegt gegnsæi í ákvörðunum og aðgerðum.

Það er öllum aðilum, atvinnulífinu og almenningi, og ekki síður útflutnings- og samkeppnisgreinunum, mikilvægt til framtíðar að Seðlabankinn nái markmiðum sínum um stöðugleika í verðlagsþróun og öryggi í fjármálakerfinu. Í þessu felst mikilvægi Seðlabankans sem þjónustustofnunar við atvinnulífið og allan almenning.

Ég þakka áheyrnina.

 

Til baka