logo-for-printing

01. desember 2005

Greiðslujöfnuður við útlönd á þriðja ársfjórðungi og erlend staða þjóðarbúsins í lok september 2005

Á þriðja ársfjórðungi 2005 var 41,3 milljarða króna halli á viðskiptum við útlönd samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands. Á sama tímabili í fyrra var viðskiptahallinn 12,7 milljarðar króna. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hallinn 106,3 milljarðar króna samanborið við 49,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Útflutningur vöru og þjónustu var 8,3% meiri á fyrstu níu mánuðum 2005 og innflutningur var um 33,6% meiri en á sama tímabili í fyrra reiknað á föstu gengi . Vöruskiptahallinn við útlönd var 70,6 milljarðar króna og hallinn á þjónustujöfnuði 22,3 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Jöfnuður þáttatekna (laun, vextir og arður af fjárfestingu) var neikvæður um 12,3 milljarða króna samanborið við 16,8 milljarða króna halla í fyrra. Hagstæðari jöfnuður þáttatekna skýrist af vaxandi tekjum af beinum fjárfestingum erlendis umfram auknar vaxtagreiðslur af erlendum skuldum. Hrein rekstrarframlög til útlanda, sem að stærstum hluta eru framlög hins opinbera til alþjóðastofnana og þróunaraðstoðar, námu 1,1 milljarði króna og höfðu hækkað nokkuð frá fyrra ári.

Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna

Júlí

  - sept.

Janúar-

   september

2004

2005

2004

2005

Viðskiptajöfnuður

-12,7

-41,3

-49,4

-106,3

   Útflutningur vöru og þjónustu

89,9

82,4

237,9

233,1

   Innflutningur vöru og þjónustu

-96,4

-119,8

-269,6

-325,9

   Þáttatekjur og framlög, nettó

-6,2

-3,9

-17,7

-13,4

Fjármagnsjöfnuður

20,7

20,9

78,9

140,8

    Hreyfingar án forða

23,9

32,8

92,7

150,3

        Erlendar eignir, nettó

-143,6

-170,0

-301,2

-689,8

        Erlendar skuldir, nettó

167,5

203,1

393,9

840,1

    Gjaldeyrisforði (- aukning)

-3,2

-11,8

-13,6

-8,4

Skekkjur og vantalið, nettó

-7,9

20,5

-29,4

-34,5

 

Miklar fjármagnshreyfingar voru á fyrstu níu mánuðum ársins og nam hreint fjárinnstreymi 140,8 milljörðum króna. Fjárstreymi til landsins skýrist að stærstum hluta af skuldabréfaútgáfu innlendra banka í útlöndum og lántökum fyrirtækja til fjárfestinga erlendis. Bein fjárfesting erlendis var 211,2 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins og fjárútstreymi vegna kaupa Íslendinga á erlendum verðbréfum 84,8 milljarðar króna. Þá var mikið fjárútstreymi vegna annarrar eignamyndunar í útlöndum, einkum aukinna innstæðna og útlána innlendra banka til erlendra lánþega. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 70,7 milljörðum króna í lok september sl. og hafði aukist frá ársbyrjun um 8,4 milljarða króna.

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 859 milljarða króna í lok september 2005. Erlendar eignir námu um 1.685 milljörðum króna en skuldastaðan nam 2.543 milljörðum króna. Meðfylgjandi töflur sýna ítarlegri upplýsingar um greiðslujöfnuðinn við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á árinu 2005 ásamt endurskoðuðum tölum fyrri ára. Þjónustujöfnuður var leiðréttur 2004 og fyrri ár í samræmi við könnun á útflutningi hugbúnaðar 2004 sem birt hefur verið á heimasíðu bankans. Endurfjárfesting hagnaðar í beinni fjárfestingu og þáttatekjur voru leiðréttar fyrir lakari afkomu hlutdeildarfyrirtækja erlendis en áætlað var á árinu 2004.

Mánudaginn 5. desember nk. birtast töflur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðu hans (www.sedlabanki.is). Einnig verður birt yfirlit um erlendar skuldir þjóðarinnar í samræmi við birtingarstaðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar er einnig að finna lýsingu á hugtökum og aðferðafræði við uppgjör greiðslujafnaðar og erlendrar stöðu þjóðarbúsins.

Nánari upplýsingar veita Sveinn E. Sigurðsson framkvæmdastjóri tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands og Jakob Gunnarsson deildastjóri á tölfræðisviði í síma 569-9600.

Fréttin í heild með töflum

Nr. 37/2005
1. desember 2005

Til baka