logo-for-printing

31. október 2005

Standard & Poor's staðfestir lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs í erlendri mynt AA-/A-1+

Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor’s greindi frá því í dag að það staðfesti lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs á langtímaskuldbindingum í erlendri mynt AA- og AA+ fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum (almennar upplýsingar um lánshæfiseinkunnir má m.a. finna á heimasíðu Seðlabanka Íslands). Um leið staðfesti fyrirtækið lánshæfiseinkunnina A-1+ fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt og íslenskum krónum. Horfur um lánshæfismatið eru stöðugar.

Í frétt fyrirtækisins segir eftirfarandi í íslenskri þýðingu:

„Kai Stukenbrock, sérfræðingur Standard & Poor’s sagði að lánshæfiseinkunn Íslands byggist á stöðugu stjórnkerfi, mjög auðugu og sveigjanlegu hagkerfi ásamt góðri stöðu opinberra fjármála. Það sem heldur aftur af frekari hækkun lánshæfiseinkunnarinnar er bæði mjög mikil erlend fjármögnunarþörf og mjög miklar erlendar skuldir hagkerfisins.

Íslenska fjármálakerfið hefur náð sér á strik eftir ójafnvægið sem skapaðist á tímabili mikillar útlánaþenslu sem átti sér stað fyrir árið 2001. Bætt regluverk og fjármálaeftirlit ásamt auknum umsvifum á Norðurlöndum og víðar, og nýlegri innkomu viðskiptabankanna á fasteignalánamarkaðinn, hefur eflt aðlögunarhæfni þeirra og gert þá síður viðkvæma fyrir efnahagsframvindu innanlands auk þess að greiða fyrir aðgangi að fjármagni. Engu að síður eru sívaxandi skuldir, ofan á þá miklu skuldsetningu sem er fyrir í hagkerfinu, talsvert áhyggjuefni.

Opinber fjármál standa áfram traustum fótum. Heildarskuldir hins opinbera munu halda áfram að lækka ört og munu nema innan við 22% af VLF árið 2008 samanborið við 50% árið 2001 sökum kröftugs hagvaxtar, tekna af einkavæðingu og tekjuafgangs ríkissjóðs til ársins 2006.

Spáð er að meðalhagvöxtur verði 3,9% frá 2005 til 2008. Hagvöxturinn er knúinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar og útlánaaukningu sem kyndir undir ójafnvægi í hagkerfinu og skapar hættu á snarpri aðlögun þegar eftirspurnarþenslunni lýkur.

Erlend fjármögnunarþörf hagkerfisins er ein sú mesta sem um getur meðal ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn en hana má rekja til mjög mikilla erlendra skulda á öllum sviðum efnahagslífisins og mikils viðskiptahalla. Hreinar erlendar skuldir hafa haldið áfram að vaxa, þrátt fyrir verulega lækkun á skuldum ríkissjóðs.

Peningastefnan ber meginþungann af mótvægisaðgerðum gegn þenslu, en það eykur líkurnar á ójafnri aðlögun þegar dregur úr eftirspurnarþenslunni.

Til að viðhalda lánshæfiseinkunninni er það höfuðatriði að mati Kai Stukenbrock að staðið verði við langtímastefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum og helst þyrfti að gera enn betur. Ef hreinar erlendar skuldir aukast verulega eða vart verður aukins ójafnvægis í þjóðarbúinu umfram það sem stóriðjuframkvæmdirnar hafa leitt af sér, gæti lánshæfið versnað.“

Með því að smella á viðhengið má nálgast skýrslu Standard & Poor's og frekari greiningu á stöðu efnahagsmála á Íslandi. 

Nánari upplýsingar veitir Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 32/2005
31. október 2005

 

Til baka