logo-for-printing

10. október 2005

Laust starf á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands auglýsir laust til umsóknar starf umsjónarmanns útgáfumála á hagfræðisviði. Hagfræðisvið annast rannsóknir og greiningu á þróun efnahags- og peningamála, gerir þjóðhags- og verðbólguspár og tekur þátt í mótun stefnunnar í peningamálum. Hagfræðisvið hefur m.a. umsjón með útgáfu ársfjórðungsritsins Peningamála og ensku útgáfu þess, Monetary Bulletin.

Verkefni starfsmannsins verða m.a.:
• Að taka þátt í undirbúningi og skipulagningu útgáfu Peningamála, Monetary Bulletin, Hagvísa Seðlabanka Íslands og annarra rita sem unnið er að á hagfræðisviði.
• Að stýra samskiptum ritnefndar, höfunda, þýðenda, prófarkalesara og við umbrotseiningu.
• Að undirbúa texta og myndir fyrir umbrot.
• Að vinna við öflun gagna, uppfærslu tímaraða, myndagerð og annað er tengist rannsóknum, greiningu og útgáfu á hagfræðisviði.
• Að taka þátt í öðrum verkefnum hagfræðisviðs eftir atvikum.

Umsækjandi þarf að hafa gott vald á mæltu og rituðu máli, bæði íslensku og ensku. Æskilegt er að viðkomandi hafi stundað nám í hagfræði, viðskiptafræði eða skyldum greinum og kunni skil á algengum hagfræðilegum hugtökum. Auk þekkingar á algengum hugbúnaði væri það kostur ef umsækjandi hefði reynslu af notkun hugbúnaðar til myndagerðar eða umbrots. Áhersla er lögð á samviskusemi, nákvæmni, gott viðmót og færni í félagslegum samskiptum.

Upplýsingar um starfið veitir Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur, í síma 569 9600. Umsóknum skal skilað fyrir 27. október 2005 til starfsmannastjóra Seðlabanka Íslands, Kalkofnsvegi 1, 150 Reykjavík.

Til baka