logo-for-printing

04. ágúst 2005

Fitch Ratings staðfestir lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs AA-/AAA

Eftirfarandi er lausleg þýðing á fréttatilkynningu sem var birt þann 4. ágúst.
Að mati Paul Rawkins, sérfræðings Fitch í London, endurspegla þessar lánshæfiseinkunnir að áhyggjuefni til skamms tíma, þ.e. ofhitnun hagkerfisins, hækkandi eignaverð og vaxandi hreinar erlendar skuldir, vegast á við þann ábata sem miklar yfirstandandi fjárfestingar í ál- og orkuiðnaði ættu að hafa í för með sér fyrir hagkerfið til lengri tíma litið.

Í kjölfar markaðsvæðingar og umbóta á fjármálamörkuðum í byrjun 10. áratugarins hefur hagvöxtur á Íslandi verið nokkuð öflugur um langt skeið. Þjóðartekjur eru á meðal þeirra hæstu meðal OECD-ríkja og hagkerfið er betur undir það búið að standa af sér ágjafir en áður. Þennan árangur má að mörgu leyti rekja til sterkrar umgjarðar efnahagsstjórnunar og hafa verðbólgumarkmið og flotgengi falið í sér mikilvægar framfarir í þeim efnum. Á sama tíma hefur aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum leitt til þess að skuldahlutfall hins opinbera er á svipuðu reki og hjá öðrum ríkjum sem hafa AA lánshæfiseinkunn.

Smæð hagkerfisins og fábreyttir framleiðsluþættir hafa hins vegar valdið miklum hagsveiflum og þar af leiðandi hafa komið tímabil ofþenslu sem leiðrétta hefur þurft með beittum efnahagsaðgerðum. Endurskoðaðar hagtölur fyrir árin 2002-2004 benda til þess að niðursveifla hagkerfisins hafi verið mun skarpari en áður hafði verið talið. Að sama skapi varð efnahagsbatinn öflugri en búist var við en hann fékk byr í seglin með nýrri fjárfestingarhrinu í ál- og orkuiðnaði og frekari hagræðingu í fjármálakerfinu.

Fitch bendir á gífurlegt umfang fjárfestinganna sem nemur að minnsta kosti 30% af vergri landsframleiðslu (VLF) eins árs. Framkvæmdirnar ná yfir tímabilið 2004-7 og frekari stækkanir eru fyrirhugaðar árin 2007-8. Verði allar þessar fjárfestingar að veruleika mun framleiðslugeta íslenska áliðnaðarins næstum þrefaldast. Til langs tíma litið ætti þetta að auka VLF um allt að 2%, breikka útflutningsgrunninn, auka gjaldeyristekjur og renna styrkari stoðum undir erlenda skuldastöðu. Til skamms tíma reyna fjárfestingarnar hins vegar töluvert á þjóðhagslegan stöðugleika, á sama tíma og húsnæðislán banka vaxa ört og kynda undir aukna neyslu og hækkandi íbúðaverð.

Fitch ber töluvert traust til íslensks efnahagsumhverfis og hæfni þess til að takast á við krefjandi viðfangsefni. Þrátt fyrir það er reynslan af fljótandi gengi og verðbólgumarkmiði enn sem komið er frekar stutt og hættan á „harðri lendingu“ hefur aukist í ljósi þess ójafnvægis sem um er að ræða í hagkerfinu. Áætlað er að hagvöxtur verði meiri en 6% á þessu ári, ásamt aukinni verðbólgu, ört hækkandi eignaverði og viðskiptahalla en hann nemur um 12 % af VLF.

Að mati Fitch eru fjármál hins opinbera vel í stakk búin til að standa af sér skarpa niðursveiflu. Skuldir hins opinbera fóru niður í 38% af VLF árið 2004 og ættu að lækka enn frekar, meðal annars með hluta af tekjunum af sölu Símans. Þessi styrkleiki, ásamt stöndugu lífeyrissjóðakerfi, skýtur stoðum undir lánshæfismat ríkissjóðs. Fitch bendir hins vegar á að það er óljósara hvernig öðrum þáttum hagkerfisins reiddi af ef syrti í álinn. Heimili og fyrirtæki eru mjög skuldsett á alþjóðlegan mælikvarða. Mikil lántaka bankanna hefur jafnframt aukið hreinar erlendar skuldir langt umfram skuldastöðu annarra þjóða með sambærilegt lánshæfismat og gerir þetta Ísland mun viðkvæmara fyrir áföllum. Þessir þættir halda enn aftur af lánshæfismatinu og horfunum en þær eru áfram stöðugar.

Nánari upplýsingar veita Jón Sigurðsson bankastjóri og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs í síma 569-9600.

21/2005
4. ágúst 2005

Til baka