logo-for-printing

03. júní 2005

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2005

Á fyrsta fjórðungi ársins var halli á viðskiptum við útlönd 30,9 milljarðar króna samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands. Á sama tíma í fyrra var viðskiptahallinn 13,1 milljarður króna. Vöruviðskipti voru óhagstæð um 11,3 milljarða króna og 12,2 milljarða króna halli var á þjónustuviðskiptum við útlönd. Halli á þáttatekjum var 7,2 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2005 samanborið við 6,7 milljarða króna halla á sama tíma í fyrra. Á föstu gengi jókst útflutningur vöru og þjónustu um 4% en innflutningur um 28,2% frá sama tímabili árið áður.

Hreint fjárinnstreymi mældist 117,6 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins. Nettólántökur erlendis námu 196,3 milljörðum króna sem skýrist aðallega af skuldabréfaútgáfu íslenskra banka á alþjóðlegum markaði. Bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi var 6,6 milljarðar króna. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa nam 10,3 milljörðum króna og 27,9 milljörðum króna vegna beinna fjárfestinga erlendis. Aðrar fjárfestingar voru 48,5 milljarðar króna, einkum útlán bankanna til erlendra aðila sem hafa aukist mikið á síðustu árum og námu í lok mars um 340 milljörðum króna. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnkaði um 3,9 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins og nam 59,5 milljörðum króna í lok mars.

Fréttin í heild með töflum pdf-skjal

Nr. 15/2005
3. júní 2005

Til baka