logo-for-printing

02. desember 2004

Greiðslujöfnuður við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2004

Á þriðja ársfjórðungi 2004 varð 5,3 milljarða króna halli á viðskiptum við útlönd samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands. Á sama tímabili í fyrra ári var viðskiptahallinn 10,3 milljarðar króna. Á fyrstu níu mánuðum ársins var viðskiptahallinn 36,3 milljarðar króna samanborið við 23,8 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Útflutningur vöru og þjónustu var 10,5% meiri á fyrstu níu mánuðum 2004 og innflutningur var um 16,6% meiri en á sama tímabili í fyrra reiknað á föstu gengi .Vöruskiptajöfnuður versnaði milli ára og þjónustujöfnuður líka enda þótt hann hafi verið hagstæðari á þriðja fjórðungi þar sem útflutt þjónusta jókst meira en innflutt þjónusta. Hallinn á þáttatekjum (laun, vextir og arður af fjárfestingu) var 5,8 milljarðar króna samanborið við 9,3 milljarða halla á fyrstu níu mánuðum í fyrra. Minni halli þáttatekna skýrist af  auknum tekjum af fjárfestingum erlendis á sama tíma og vextir á erlendum lánamörkuðum haldast lágir. Hrein rekstrarframlög til útlanda sem að stærstum hluta eru framlög hins opinbera til alþjóðastofnana og þróunaraðstoðar námu 0,9 milljörðum króna og höfðu hækkað nokkuð frá fyrra ári.

Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna

Júlí

  - sept.

Janúar-

   september

2003

2004

2003

2004

Viðskiptajöfnuður

-10,3

-5,3

-23,8

-36,3

   Útflutningur vöru og þjónustu

80,2

91,5

219,0

240,1

   Innflutningur vöru og þjónustu

-87,4

-97,0

-233,1

-269,7

   Þáttatekjur og framlög, nettó

-3,1

0,2

-9,7

-6,7

Fjármagnsjöfnuður

4,9

6,7

25,8

51,3

    Hreyfingar án forða

14,7

10,0

35,8

65,1

        Erlendar eignir, nettó

-31,1

-145,0

-99,7

-302,0

        Erlendar skuldir, nettó

45,8

155,0

135,6

367,0

    Gjaldeyrisforði (- aukning)

-9,6

-3,2

-9,8

-13,6

Skekkjur og vantalið, nettó

5,3

-1,4

-2,0

-15,0

Fjármagnshreyfingar hafa sjaldan verið eins miklar og á þriðja ársfjórðungi 2004. Hreint fjárinnstreymi var 51,3 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins sem skýrist að stærstum hluta af skuldabréfaútgáfu innlendra banka í útlöndum. Fjárútstreymi vegna kaupa Íslendinga á erlendum verðbréfum nam 48,9 milljörðum króna og bein fjárfesting erlendis 135,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Þá var mikið fjárútstreymi vegna annarrar eignamyndunar í útlöndum, einkum aukinna innstæðna og útlána innlendra banka til erlendra lánþega. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 71,1 milljarði króna í lok september sl. og hafði aukist frá ársbyrjun um 13,6 milljarða króna.

Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 623,2 milljörðum króna umfram erlendar eignir í lok september 2004. Erlendar eignir námu um eitt þúsund milljörðum króna og höfðu aukist um 280 milljarða króna frá lokum síðasta árs. Þessari eignamyndun og viðskiptahallanum var mætt með aukinni erlendri skuldsetningu þjóðarinnar. Erlendar skuldir námu eitt þúsund og sex hundruð milljörðum króna í lok september eða tæplega tvöfaldri áætlaðri landsframleiðslu ársins. Meðfylgjandi töflur sýna ítarlegri upplýsingar um greiðslujöfnuðinn við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á árinu 2004 ásamt endurskoðuðum tölum fyrri ára þar sem beinar fjárfestingar og tekjur af þeim hafa verið leiðréttar með nýjum upplýsingum fyrir árin 2002 og 2003.

Mánudaginn 6. desember nk. birtast töflur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðu hans (www.sedlabanki.is). Einnig verður birt yfirlit um erlendar skuldir þjóðarinnar í samræmi við birtingarstaðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar verður einnig að finna yfirlit um erlenda stöðu Seðlabankans og innlánsstofnana, auk ítarlegri upplýsinga um ferðalög milli landa, verðbréfaviðskipti og beina erlenda fjárfestingu.

Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
 
Fréttin í heild með töflum (pdf-skjal31kb)

Nr. 33/2004
2. desember 2004

Til baka