logo-for-printing

05. nóvember 2004

Breyttir 1000 kr. og 500 kr. seðlar

Nýr og breyttur eitt þúsund króna seðill verður settur í umferð mánudaginn 8. nóvember nk. Nýi seðillinn er í flestum atriðum eins og hinn eldri, en á honum eru þó gerðar endurbætur. Með þeim verður hann öruggari en eldri seðill. Auðveldara verður að greina nýja seðilinn og erfiðara að falsa hann. Eldri seðillinn er áfram lögeyrir, en verður tekinn úr umferð smám saman.

Útlitsbreytingar á nýja seðlinum felast í því að fyllt er að nokkru út í spássíur sem voru á eldri seðli og bætt við tveimur sýnilegum öryggisþáttum. Þeir eru silfurlituð málmþynna og öryggisþráður í litbrigðum. Horn nýja seðilsins eru styrkt með því að koma fyrir vatnsmerki þar. Vatnsmerkið styrkir pappírinn og gerir seðilinn endingarbetri. Auk þessa er á seðlinum reitur sem sést í útfjólubláu ljósi og fleiri öryggisþættir sem aðeins verða greindir með sérstökum búnaði. Kristín Þorkelsdóttir og Stephen A. Fairbairn, grafískir hönnuðir, teiknuðu eldri þúsund króna seðilinn, og vann Kristín að nýrri gerð hans nú. Seðillinn er prentaður í seðlaprentsmiðju De La Rue plc á Englandi.

Af eldri gerð seðilsins eru rúmlega 2,1 milljónir eintaka í umferð. Komið var að nýrri prentun, og var ákveðið að fjölga öryggisþáttum af því tilefni og færa útlit seðilsins að útliti fimm og tvö þúsund króna seðla. Prentaðar hafa verið fjórar milljónir nýrra þúsund króna seðla. Kostnaður af upplaginu er rúmlega 44 m.kr., þar af rúmlega 3 m.kr. vegna nýrra öryggisþátta. Endingartími eitt þúsund króna seðils hefur verið um tólf mánuðir að jafnaði, og mun eldri gerð seðilsins hverfa úr umferð að mestu á um það bil einu ári.

Í tilefni af útgáfu breytts seðils verður kynningarefni sent á hvert heimili í landinu. Þar er greint frá öryggisþáttum nýja þúsund króna seðilsins. Auk þess er greint frá breyttum fimm hundruð króna seðli sem verður settur í umferð á árinu 2005. Á heimasíðu Seðlabanka Íslands er sömu upplýsingar að finna auk margháttaðs annars fróðleiks um íslenska seðla og mynt fyrr og nú.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, í síma 569 9600.

Nr. 31/2004
5. nóvember 2004

Til baka