logo-for-printing

06. september 2004

Greiðslujöfnuðurinn við útlönd

Fimmtudaginn 2. september sl. birti Seðlabanki Íslands frétt um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi 2004. Í niðurlagi fréttarinnar var þess getið að í dag, mánudaginn 6. september, yrðu birt töfluyfirlit um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðu bankans. Í fréttinni kom einnig fram að tölur fyrri ára hefðu verið endurskoðaðar. Þessi yfirlit hafa nú verið birt. Sérstök athygli er vakin á endurskoðun eldri talna, einkum vegna þess að nýtt uppgjör leiðir í ljós að viðskiptahallinn við útlönd var minni í fyrra en áður hafði verið greint frá, tæpir 32 milljarðar króna í stað 43,5 milljarða króna. Breytingin á að öllu leyti rætur að rekja til nýrra upplýsinga um þáttatekjur nettó, þ.e. um vaxta- og arðgreiðslur. Þá var afgangurinn á fjármagnsjöfnuði mun minni 2003 en áður birtar bráðabirgðatölur gáfu til kynna og liðurinn skekkjur og vantalið, nettó , hefur minnkað. Aðrar breytingar voru mun minni.

Alkunna er að uppgjör greiðslujafnaðar er mikilli óvissu háð hvar sem er í heiminum og endanlegt uppgjör verður jafnan til með umtalsverðri töf. Þá hefur aukið frelsi á fjármagnsmarkaði og fjölbreytilegri fjármagnsviðskipti gert erfiðara um vik en áður að afla nákvæmra og tímanlegra gagna um fjármagnshreyfingar á milli Íslands og annarra landa.

Þá er vakin athygli á að í texta fréttarinnar sl. fimmtudag misritaðist ein tala og að í töflunni um erlenda stöðu þjóðarbúsins riðluðust tölur um gengi Bandaríkjadals. Hvort tveggja hefur verið leiðrétt í fréttinni eins og hún er birt á heimasíðu bankans.

Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.

 

Nr. 24/2004
6. september 2004Til baka