logo-for-printing

02.09.2004

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi 2004 (leiðrétt)

Á öðrum fjórðungi ársins 2004 var 16,7 milljarða króna halli á viðskiptum við útlönd samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands samanborið við 14,5 milljarða króna halla á sama tímabili árið áður. Á fyrri helmingi ársins var viðskiptahallinn 27,8 milljarðar króna samanborið við ríflega 14,3 milljarða króna (leiðrétt) á sama tímabili í fyrra. Útflutningur vöru og þjónustu var 7,1% meiri á fyrri árshelmingi 2004 en á sama tímabili í fyrra en innflutningur var um 17,7% meiri reiknað á föstu gengi . Hallinn á þáttatekjum (laun, vextir og arður af fjárfestingu) og hreinum rekstrarframlögum var 4,9 milljarðar króna á fyrri árshelmingi en 7,4 milljarðar á sama tímabili í fyrra.

Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna
  Apríl- júní   Janúar-júní
   2003  2004  2003 2004 
Viðskiptajöfnuður   -14,5  -16,7  -14,3  -27,8
   Útflutningur vöru og þjónustu  67,6       76,5   138,8  149,0
   Innflutningur vöru og þjónustu  -78,3  -94,5  -145,6  -172,0
   Þáttatekjur og framlög, nettó  -3,8  -1,4  -7,4  -4,9
 Fjármagnsjöfnuður  11,0  15,5  12,8  29,1
   Hreyfingar án forða  11,1  18,7  13,9  39,8
     Erlendar eignir, nettó  -56,8  -101,3  -77,5  -168,8
     Erlendar skuldir, nettó  68,0  120,0  90,6  208,6
 Gjaldeyrisforði (-aukning)  0,0  -3,0  -0,2  -10,5
 Skekkjur og vantalið  3,5  1,2  1,5  -1,2

Hreint fjárinnstreymi var 29,1 milljarður króna á fyrri árshelmingi 2004. Það skýrist að stærstum hluta af skuldabréfaútgáfu í útlöndum, en áhugi erlendra aðila á verðbréfum útgefnum á Íslandi minnkaði til muna og nam endursala þeirra á slíkum bréfum þá 10 milljörðum króna. Fjárútstreymi vegna kaupa Íslendinga á erlendum verðbréfum nam 33,6 milljörðum króna og bein fjárfesting Íslendinga erlendis 40,2 milljörðum króna á fyrri hluta ársins. Þá var mikið fjárútstreymi vegna annarrar eignamyndunar í útlöndum, einkum útlána innlendra banka til erlendra lánþega. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 68,5 milljörðum króna í júnílok og hafði aukist frá ársbyrjun um 10,5 milljarða króna.

Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 596,6 milljörðum króna umfram erlendar eignir í lok júní 2004. Hrein skuldastaða við útlönd hækkaði um 46,5 milljarða króna á fyrri árshelmingi vegna fjármögnunar viðskiptahallans en einnig vegna verð- og gengisbreytinga. Meðfylgjandi töfluyfirlit sýna ítarlegri upplýsingar um greiðslujöfnuðinn við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á árinu 2004 ásamt endurskoðuðum tölum fyrri ára þar sem beinar fjárfestingar og tekjur af þeim hafa verið leiðréttar með nýjum upplýsingum fyrir árin 2001-2003.

Mánudaginn 6. september n.k. birtast töfluyfirlit um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu í hagtölum Seðlabankans á heimasíðu hans (www.sedlabanki.is). Einnig birtist yfirlit um erlendar skuldir þjóðarinnar í samræmi við birtingarstaðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabankans í síma 569-9600.

Nr. 23/2004
2. september 2004

Fréttin í heild með töflum (pdf-skjal 31kb)

 

 

 

 

Til baka