logo-for-printing

01. júlí 2004

Seðlabanki Íslands hækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur frá og með næsta uppboði á endurhverfum lánssamningum við lánastofnanir sem fram fer 6. júlí n.k. Eftir breytinguna verða þeir 6,25%. Í niðurlagi inngangsgreinar Peningamála 2004/2 sem gefin voru út 1. júní sl. sagði að horfur í efnahags- og peningamálum gætu gefið tilefni til meiri hækkunar vaxta en þá var tilkynnt. Því mætti búast við að bankinn hækkaði stýrivexti sína fljótlega aftur nema nýjar upplýsingar gæfu sterkar vísbendingar um betri verðbólguhorfur.

Framvindan undanfarnar vikur gefur ekki tilefni til að hverfa frá áformum um frekara aðhald í peningamálum. Verðbólga jókst í júní. Hún er nú nálægt efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins og hugsanlegt er að hún muni tímabundið rjúfa þau1. Verðbólguspáin sem birt var í byrjun júní fól í sér að verðbólga færi lítillega yfir þolmörkin á komandi mánuðum en að síðan myndi draga úr henni á ný og hún minnka niður undir 2½% verðbólgumarkmiðið á næsta ári. Seðlabankinn hefur nú hækkað stýrivexti sína tvisvar frá því að spáin var gerð og þrisvar síðan snemma í maí, samtals um 0,95 prósentur.

Þótt verðbólga nú sé að hluta til af erlendum uppruna og að því leyti utan áhrifasviðs Seðlabankans eiga innlendar verðhækkanir einnig umtalsverðan hlut að máli. Einkum hefur húsnæðiskostnaður hækkað ört. Vísbendingar gefa til kynna að innlend eftirspurn vaxi hratt um þessar mundir. Til dæmis jókst einkaneysla á fyrsta fjórðungi ársins um 8% frá fyrra ári og vísbendingar eru um áframhaldandi öran vöxt á öðrum ársfjórðungi.

Upplýsingar sem komið hafa fram frá því að vextir bankans voru hækkaðir í byrjun júní styrkja því rökin fyrir vaxtahækkun nú. Hér er m.a. vísað til verðbólgu, einkaneyslu, fjárfestingar og vaxandi verð­bólguvæntinga sem hafa valdið lækkun raunstýrivaxta. Af þessum sökum var ákveðið að hækka stýrivexti um 0,5 prósentur að þessu sinni. Miklar framkvæmdir sem framundan eru munu að óbreyttu krefjast frekari hækkunar vaxta á komandi mánuðum. Hversu hratt það gerist er háð framvindu ýmissa þátta, ekki síst verðbólgu og eftirspurnar. Seðlabankinn mun á næstu vikum og mánuðum fylgjast náið með framvindunni og haga peningastefnunni í samræmi við markmið hennar um að verðbólga verði sem næst 2½%.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður banka­stjórnar í síma 569-9600.

Nr. 19/2004
1. júlí 2004

 

 

1.Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um verðbólgumark­mið og breytta gengisstefnu frá 27. mars 2001 segir að fari verðbólgan út fyrir þol­mörk beri bankanum að ná henni svo fljótt sem auðið er inn fyrir þau að nýju. Jafn­framt beri bankanum að senda greinargerð til ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur hver ástæða frávikanna sé, hvernig bankinn hyggst bregðast við og hve langan tíma hann telur það taka að ná verðbólgumarkmiðinu að nýju. Greinargerðin skal birt opinberlega.

 

Til baka