logo-for-printing

04. mars 2004

Greiðslujöfnuður við útlönd á 4. ársfjórðungi 2003 og erlend staða þjóðarbúsins - leiðrétt

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var 13,4 milljarða króna halli á viðskiptum við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2003. Á sama tímabili 2002 var hallinn af viðskiptum við útlönd 2 milljarðar króna. Viðskiptahallinn var 45,5 milljarðar króna á öllu árinu 2003 samanborið við 2,2 milljarða króna halla 2002. Útflutningur vöru og þjónustu minnkaði á árinu 2003 um 2% en innflutningur jókst um 13,2% frá árinu áður reiknað á föstu gengi . Hallinn á jöfnuði þáttatekna (launa, vaxta og arðs af fjárfestingum) og rekstrarframlögum nettó var um 18,3 milljarðar króna á árinu 2003, lítið eitt meiri en á árinu 2002. (Skuldahlutföll í töfluyfirliti í pdf-skjali eru leiðrétt).

Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna

 

  Október- desember   Janúar-desember
   2002  2003  2002 2003 
Viðskiptajöfnuður   -2,0  -13,4  -2,2  -45,5
   Útflutningur vöru og þjónustu  -72,3       66,7   308,8  284,5
   Innflutningur vöru og þjónustu  -71,0  -78,6  -292,9  -311,6
   Þáttatekjur og framlög, nettó  -3,3  -1,5  -18,1  -18,3
 Fjármagnsjöfnuður  4,3  7,7  8,8  31,8
   Fjármagnshreyfingar án forða  -6,7  6,1  14,6  55,6
   Gjaldeyrisforði (-aukning)  11,0  -13,6  -5,7  -23,4
 Skekkjur og vantalið  -2,2  21,1  -6,5  13,7

 

Hreint fjárinnstreymi mældist 31,8 milljarðar króna á árinu 2003. Fjárinnstreymið var að stærstum hluta erlend lántaka að fjárhæð 263 milljarðar króna, aðallega í formi skuldabréfaútgáfu erlendis en auk þess keyptu erlendir aðilar skuldabréf á innlendum markaði fyrir 17,7 milljarða króna á árinu 2003. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa innlendra fjárfesta nam 45,4 milljörðum króna á árinu 2003 og hafði aukist umtalsvert frá árinu áður. Önnur eignamyndun í útlöndum var mikil á árinu 2003, einkum vegna aukinna innstæðna og útlána bankanna til erlendra aðila. Bein fjárfesting innlendra aðila erlendis nam 15,1 milljarði króna á árinu 2003 en fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi var á sama tíma 6,5 milljarðar króna. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 58,1 milljarði króna í árslok 2003 og hafði aukist um 23,4 milljarða króna á árinu 2003, þar af um 13,6 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi.

Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 539 milljörðum króna umfram erlendar eignir í árslok 2003. Hrein skuldastaða við útlönd lækkaði um 28 milljarða króna frá árslokum 2002 þrátt fyrir viðskiptahalla. Lækkun skuldastöðunnar má rekja til gengishækkunar krónunnar og hækkunar á markaðsvirði erlendra hlutabréfa og jákvæðs skekkjuliðar greiðslujafnaðar. Erlendar eignir námu 671 milljarði króna í árslok 2003 og hækkuðu um 274 milljarða króna á árinu. Erlendar skuldir þjóðarinnar hækkuðu um 246 milljarða króna og voru 1.210 milljarðar króna í árslok 2003. 

Skekkjuliður greiðslujafnaðar er stór og jákvæður á árinu 2003 eftir að hafa verið oftast neikvæður á árunum þar á undan. Sveiflur í skekkjulið greiðslujafnaðar sýna að ekki hefur tekist að mæla öll erlend viðskipti og fjármagnshreyfingar á réttum tíma. Skýringu á stórum og jákvæðum skekkjulið á fjórða ársfjórðungi má eflaust rekja til mikillar hækkunar erlendra eigna sem ekki tókst að mæla fyrr en nú. 

Meðfylgjandi yfirlit sýna ítarlegri upplýsingar um greiðslujöfnuðinn við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Mánudaginn 8. mars 2004 birtist töfluyfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðu bankans

Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson, deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands, í síma 569-9600.

 

Fréttin í heild með töflum (leiðréttum skuldahlutföllum) - pdf, 399 kb

Nr. 6/2004
4. mars 2004

Til baka