logo-for-printing

02. mars 2004

Seðlabanki Íslands styrkir stöðu háskólakennara í peningahagfræði við Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Seðlabanki Íslands undirrituðu í dag samstarfssamning um eflingu kennslu og rannsókna í peningahagfræði við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Samkvæmt honum styrkir Seðlabanki Íslands Háskóla Íslands á árunum 2004 til 2007 til að standa undir kostnaði af stöðu háskólakennara í peningahagfræði. Seðlabankinn stuðlar með þessu að aukinni þekkingu þeirra sem útskrifast úr Viðskipta- og hagfræðideild á hlutverki og áhrifum peningastefnu og bættri þjóðfélagslegri umræðu um hana. Samningurinn er gerður í tilefni af 100 ára afmæli heimastjórnar og 50 ára afmæli Fjármálatíðinda.

Háskólakennarinn mun sinna kennslu og rannsóknum á sviði fræðilegrar og hagnýtrar peningahagfræði. Meðal annars er átt við hlutverk seðlabanka í hagstjórn,  stjórntæki hans, miðlun aðgerða hans um fjármálakerfið og áhrif á hagkerfið og samspil við aðra hagstjórn. Einnig er átt við gengismál og alþjóðleg peningamál. Æskilegt er að háskólakennarinn geti í einhverjum mæli sinnt rannsóknum á sögu peningamála á Íslandi.

Háskólakennarinn mun kynna rannsóknir sínar á opinberum vettvangi, m.a. í málstofum í Seðlabanka Íslands og í útgáfum á vegum bankans. Jafnframt miðlar hann af þekkingu sinni um peningamál á innlendum vettvangi.

Starfið verður auglýst eigi síðar en 1. apríl 2004 og í það ráðið til þriggja ára frá 1. ágúst 2004.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.

Nr. 5/2004
2. mars 2004

Til baka