logo-for-printing

19. janúar 2004

Útgáfudagar Peningamála og þjóðhags- og verðbólguspár 2004

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að gefa ársfjórðungsrit sitt Peningamál út einum mánuði seinna frá og með árinu í ár en hingað til hefur verið gert, þ.e. í mars, júní, september og desember. Þessir útgáfumánuðir henta betur í skipulagningu verkefna sem tengjast útgáfu Peningamála, auk þess sem ætla má að á heildina litið henti þeir betur til þess að koma greiningu og spám bankans á framfæri en fyrri útgáfumánuðir.

Einnig hefur verið ákveðið, að höfðu samráði við forsætisráðuneytið, að fullbúnar þjóðhags- og verðbólguspár verði hér eftir birtar tvisvar á ári en ekki fjórum sinnum. Spárnar verða birtar í júní- og desemberheftum Peningamála. Seðlabankinn mun birta spár oftar ef hann telur til þess tilefni og þá annað hvort uppfærslur á síðustu spám eða fullgerðar spár. Í þeim heftum Peningamála þar sem ekki verða birtar þjóðhags- og verðbólguspár verður engu að síður birt greining á framvindu efnahagsmála, horfum eins og þær kunna að hafa breyst frá birtingu síðustu spár og í sumum tilvikum sem fyrr segir uppfærsla á síðustu spám. Í næsta hefti Peningamála sem gefið verður út í mars n.k. verður birt uppfærsla á spá bankans frá nóvember sl.

Gerð fullbúinnar þjóðhags- og verðbólguspár krefst mjög mikillar vinnu og hæpið er í því ljósi að ávinningurinn af fjórum spám á ári sé nægur. Þá skiptir einnig máli að mun betra jafnvægi ríkir nú í þjóðarbúskapnum en fyrst eftir að 2½% verðbólga varð meginmarkmið peningastefnunnar í mars 2001. Því er vonast til að sveiflur í verðbólgu verði minni en áður og af þeim sökum verði ekki nauðsynlegt að gera eins tíðar spár. Þá má geta þess að ýmsir seðlabankar með verðbólgumarkmið sem Seðlabanki Íslands ber sig gjarnan saman við birta spár tvisvar eða þrisvar á ári.

Í mars- og septemberheftum Peningamála, þ.e. þeim heftum þar sem ekki verða birtar fullbúnar þjóðhags- og verðbólguspár, verða birtar úttektir bankans á fjármálastöðugleika.

Í samræmi við ofangreint verða útgáfudagar Peningamála í ár eftirfarandi: 17. mars, 1. júní, 17. september og 2. desember.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans í síma 569-9600.

Nr. 3/2004
19. janúar 2004

 

Til baka