logo-for-printing

16. desember 2003

Standard & Poor's staðfestir lánshæfiseinkunnir Íslands og breytir horfum

Matsfyrirtækið Standard & Poor's greindi frá því í dag að fyrirtækið hefði uppfært horfur um lánshæfiseinkunn í erlendri mynt frá stöðugum í jákvæðar. Fyrirtækið staðfesti jafnframt allar lánshæfiseinkunnir fyrir Ísland, þar með taldar einkunnirnar A+/A-1+ fyrir lán í erlendri mynt og AA+/A-1+ fyrir lán í íslenskum krónum.

Breyttar horfur um lánshæfiseinkunnina í erlendri mynt endurspegla jákvætt endurmat fyrirtækisins á þróun fjármálakerfisins auk hagstæðra áhrifa stóriðjufjárfestinga á hagkerfið og vaxtarmöguleika þess.

Í tilkynningu fyrirtækisins kemur eftirfarandi einnig fram:

Forsendur fyrir jákvæðum horfum lánshæfismats
Lánshæfiseinkunn Íslands er studd af styrku stjórnkerfi og auðugu og sveigjanlegu hagkerfi ásamt góðri stöðu opinberra fjármála. Það sem hindrar hækkun einkunnarinnar eru miklar erlendar skuldir þjóðarinnar ásamt skuldbindingum og ábyrgðum stjórnvalda utan fjárlaga.

Íslenska stjórnkerfið er stöðugt og sveigjanlegt, nýtur víðfeðms stuðnings auk hefðar fyrir stöðugar samsteypustjórnir.

Auðugt og sveigjanlegt hagkerfið skapar landsframleiðslu sem mælist ein sú hæsta á mann í heiminum. Sveigjanleiki hagkerfisins kom fram í skjótri lagfæringu á ójafnvæginu sem myndaðist í uppsveiflunni á árunum 1996 til 2000. Hún var knúin áfram af útlánum. Útlánavöxturinn stöðvaðist nær alveg árið 2002 eftir 44% vöxt árið 2000 og viðskiptahallinn, sem var 10,1% af vergri landsframleiðslu (VLF) 2000, hvarf án meiri háttar efnahagslegra afleiðinga. Hagvöxtur hefur aftur aukist og gæti orðið 5,5% árið 2005 eftir 1,7% vöxt árið 2003 og smávegis samdrátt árið 2002.

Opinber fjármál standa traustum fótum. Lítils háttar halli verður hjá hinu opinbera árið 2003 eða sem nemur 1,1% af VLF. Þetta stafar að hluta af minni efnahagsumsvifum og sérstökum aðgerðum á útgjalda- og tekjuhlið. Ef horft er til framtíðar er reiknað með að fjárlög skili nokkrum afgangi að minnsta kosti til ársins 2006. Skuldir hins opinbera munu lækka á ný og verða 32,9% af VLF árið 2006 samanborið við 46,2% árið 2002.

Hreinar skuldir þjóðarbúsins við útlönd eru mjög miklar eða sem svarar til 272% af heildarútflutningstekjum (e. Current Account Receipts) árið 2003. Útstreymi fjármagns frá lífeyrissjóðum vegna fjárfestinga þeirra erlendis til að breikka fjárfestingargrunn sinn eykur þrýsting á greiðslujöfnuðinn. Þrátt fyrir hraða minnkun viðskiptahallans og mikla styrkingu gjaldeyrisforðans hefur erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins batnað aðeins lítillega og verður í fyrirsjáanlegri framtíð ein sú veikasta í samanburði við aðrar þjóðir sem hafa lánshæfismat.

Ábyrgðir og skuldbindingar utan fjárlaga eru að minnka. Ójafnvægi í fjármálageiranum hafði verið umtalsvert vegna útlánaþenslu. Áhættu gætir enn vegna mikilla erlendra skuldbindinga og óstöðugs gengis. Á móti kemur að strangari varúðarreglur og bætt eftirlit ásamt betri rekstrarvísbendingum og bættri afkomu hafa styrkt fjármálakerfið frá því sem var í upphafi áratugarins.

Horfur
Jákvæðar horfur um lánshæfiseinkunn á skuldbindingum í erlendri mynt endurspegla þá væntingu að stöðugleiki í fjármálakerfinu muni halda áfram að eflast vegna strangari varúðarreglna og strangara fjármálaeftirlits og vegna einkavæðingar tveggja stærstu bankanna auk samruna þriðju og fjórðu stærstu bankanna.

Bein erlend fjárfesting mun aukast til muna á næstu árum vegna byggingar álvera og orkuvera á árunum 2004 ' 2010. Þetta mun örva hagvöxt og styrkja efnahagskerfið.

Þar sem framkvæmdirnar geta verið krefjandi fyrir hagstjórn er búist við að ríkisstjórnin og Seðlabankinn haldi fast um taumana á ríkisfjármálum og peningamálum til að koma í veg fyrir efnahagslegt ójafnvægi sem gæti leitt til enn verri erlendrar skuldastöðu.

Hugsanleg hækkun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á skuldbindingum í erlendri mynt er háð frekari styrkingu fjármálakerfisins auk skynsamlegrar efnahagsstjórnar á komandi tímabili. Hins vegar gæti verulega verri erlend skuldastaða eða efnahagslegt ójafnvægi af völdum stórframkvæmda leitt til þess að horfur yrðu endurskoðaðar til lækkunar.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs í síma 569-9600.

Nr. 33/2003
16. desember 2003

Til baka