logo-for-printing

02. desember 2003

Nýjar reglur um bindiskyldu fjármálafyrirtækja

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur sett nýjar reglur um bindiskyldu fjármálafyrirtækja (lánastofnana) sem hafa starfsleyfi samkvæmt 1., 2. og 3. tl. 4. greinar laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fyrr á árinu boðaði Seðlabankinn breytingar á bindiskyldu sem hefðu það að meginmarkmiði að samræma, eftir því sem aðstæður leyfa, starfsumhverfi hérlendra fjármálafyrirtækja starfsumhverfi sambærilegra fyrirtækja í flestum löndum Evrópu (sbr. frétt bankans nr. 5/2003 frá 28. febrúar sl.). Þess var jafnframt getið að breytingum yrði hrundið í framkvæmd í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga yrðu bindihlutföll lækkuð nokkuð og í síðari áfanga yrðu reglur Seðlabankans um bindigrunn og bindihlutfall færðar til samræmis við reglur sem Seðlabanki Evrópu hefur sett lánastofnunum sem starfa í aðildarlöndum Efnahags- og myntbandalags Evrópu. Þess var jafnframt getið að áfangarnir myndu væntanlega hvor um sig leiða til áþekkrar lækkunar bindiskyldu. Fyrri áfanginn tók gildi í mars sl.

Í nóvemberhefti ársfjórðungsrits Seðlabankans Peningamála var frá því greint að ef nauðsynlegt reyndist myndi bankinn beita aðgerðum til þess að vinna gegn innlendri peningaþenslu af völdum reglulegra gjaldeyriskaupa sinna á komandi ári. Hið sama gildir um áhrif breytinganna á bindiskyldu.

Sem fyrr segir hefur bankastjórn Seðlabanka Íslands nú sett nýjar reglur um bindiskyldu og taka þær gildi 21. desember nk. Reglurnar hafa verið birtar á heimasíðu Seðlabankans og verða birtar í B-deild Stjórnartíðinda nú í desember.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

Nr. 31/2003
2. desember 2003

 

Til baka