logo-for-printing

22. september 2003

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans 2003

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans og tengdir fundir standa nú yfir í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Sunnudaginn 21. september var haldinn haustfundur fjárhagsnefndar sjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC). Í nefndinni sitja 24 fulltrúar sem eru ráðherrar eða seðlabankastjórar þeirra ríkja sem gegna formennsku í einstökum kjördæmum sjóðsins. Formaður nefndarinnar er Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands. Ísland fer með formennsku í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna árin 2002 og 2003. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, er fulltrúi kjördæmisins í nefndinni og gerði grein fyrir sameiginlegri afstöðu ríkjanna til viðfangsefna fundarins. Ræða fjármálaráðherra og yfirlýsing fjárhagsnefndarinnar eru birtar á vefsíðum fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands.

Í ræðu fjármálaráðherra var fjallað um þróun og horfur í heimsbúskapnum. Hann lagði áherslu á að aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hrintu í framkvæmd aðgerðum, ekki síst skipulagsumbótum, sem stuðluðu að auknum hagvexti. Einnig lagði hann áherslu á mikilvægi þess að þróunarríkjum yrði tryggður greiðari aðgangur að alþjóðamörkuðum og að ríki heimsins ynnu að því í sameiningu að þúsaldar þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna (e: Millennium Development Goals) nái fram að ganga. Í umfjöllun um stefnumál Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lagði fjármálaráðherra einkum áherslu á leiðir til þess að styrkja eftirlitshlutverk sjóðsins og leiðir til að þróa áfram fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir fjármálakreppur. Einnig áréttaði hann nauðsyn stjórnfestu og gagnsæis.

Á ársfundinum flytur Birgir Ísleifur Gunnarson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, ræðu fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Ræðan verður flutt n. k. miðvikudag, 24. september og verður birt að því loknu á heimasíðu Seðlabankans.

Nánari upplýsingar veitir Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands í síma 891-6888.

 

Nr.25/2003
22. september 2003

Til baka