logo-for-printing

14. apríl 2003

Fundur fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Laugardaginn 12. apríl 2003 var haldinn í Washington fundur fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee). Ísland hefur í rúmt ár gegnt formennsku í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, situr í nefndinni og talar fyrir hönd kjördæmisins. Í nefndinni sitja 24 fulltrúar sem eru ráðherrar eða seðlabankastjórar þeirra ríkja sem fara með forystu í einstökum kjördæmum sjóðsins. Aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru nú 184 að tölu.

Á fundinum fjallaði fjármálaráðherra um stöðu og horfur í alþjóðaefnahagsmálum og lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að fylgja ábyrgri efnahagsstefnu. Jafnframt lýsti hann yfir stuðningi við að koma á fót formlegu verklagi til að leysa úr erfiðleikum ríkja sem komin eru í greiðsluþrot. Þá fjallaði fjármálaráðherra um mikilvægi  eftirlitshlutverks sjóðsins og hvernig mætti efla það. Að lokum áréttaði ráðherrann mikilvægi þess að skilyrði til hagvaxtar hjá þróunarlöndum yrðu bætt og þeim gert kleift að taka virkari þátt í alþjóðasamfélaginu. Jafnframt þyrfti að tryggja greið viðskipti þróunarlandanna bæði sín á milli og við iðnríkin.

Á fundi nefndarinnar var fjallað um ástand og horfur í heimsbúskapnum sem hefur að undanförnu einkennst af mikilli óvissu. Nefndin ítrekaði stuðning sinn við aðgerðir til að efla hagvöxt og skjóta styrkari stoðum undir heimsbúskapinn.

Verkefni og stefnumál Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru einnig til umræðu. Efst á baugi var umfjöllun um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn fjármálakreppum og hvernig sé farsælast að leysa úr þeim. Framkvæmdastjóri sjóðsins gerði grein fyrir athugunum sem miða að því að koma á fót formlegu verklagi til að leysa greiðsluerfiðleika þeirra ríkja sem komin eru í greiðsluþrot (Sovereign Debt Restructuring Mechanism). Þessu var vel tekið en þó talið að þróa þyrfti hugmyndina betur áður en lengra væri haldið. Fundarmenn álitu að nauðsynlegt væri að alþjóðasamfélagið einbeitti sér að því að setja viðbótarákvæði í skilmála skuldabréfa, sem veitir meirihluta skuldabréfaeigenda ákvörðunarvald til skuldbreytinga (e. Collective Action Clauses). Málefni þróunarlanda voru rædd og hlutverk sjóðsins á þeim vettvangi.

Ræða Geirs H. Haarde fjármálaráðherra er birt í heild sinni á vefsíðum fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands  ásamt ályktun fundar nefndarinnar .

Nánari upplýsingar að öðru leyti veita seðlabankastjórar og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

11/2003

14. apríl 2003

 

Til baka