logo-for-printing

12. desember 2002

Seðlabanki Íslands lækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans í endurhverfum viðskiptum við lánastofnanir um 0,5 prósentur í 5,8% í næsta uppboði sem haldið verður 17. desember nk.

Ákveðið var að lækka vexti í ljósi þess að hagtölur sem birst hafa síðan Seðlabankinn kynnti verðbólguspá í byrjun nóvember hafa enn aukið líkur á að verðlagsþróun næstu tveggja ára verði undir verðbólgumarkmiði bankans að óbreyttri peningastefnu og án stóriðjuframkvæmda. Hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember og desember bendir til þess að verðbólga á fjórða ársfjórðungi verði minni en bankinn spáði í nóvember sl. Verðbólgumarkmið bankans náðist í nóvember og tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs var 2% í desember. Seðlabankinn hefur hins vegar talið að vísitala neysluverðs hafi á þessu ári vanmetið undirliggjandi verðbólgu. Þróun kjarnavísitalna styður þessa skoðun þar sem hækkun þeirra undanfarna tólf mánuði er enn lítillega fyrir ofan verðbólgumarkmið bankans. Hins vegar hefur gengi krónunnar styrkst um nærri 3½% frá því að verðbólguspá bankans sem birtist í nóvemberhefti Peningamála var gerð. Það leiðir að öðru óbreyttu til minni verðbólgu en ella.

Horfur um hagvöxt og eftirspurn hafa lítið breyst síðan í haust og því er áfram útlit fyrir lítils háttar slaka á vöru- og vinnumarkaði á næsta ári. Hagvöxtur í ýmsum mikilvægum viðskiptalöndum hefur hins vegar verið minni en áður var vænst og seðlabankavextir hafa víða verið lækkaðir að undanförnu.

Eftir þessa vaxtalækkun er líklegt að raunstýrivextir Seðlabankans séu orðnir nærri því sem til lengdar gætu verið jafnvægisvextir. Í ljósi þess að spáð er fremur litlum slaka í hagkerfinu á næsta ári án stóriðjuframkvæmda og að á næstu vikum gæti legið fyrir hvort af þeim verður er ekki hægt að segja til um það nú hvenær og í hvaða átt næsta breyting á vöxtum Seðlabankans verður. Eins og endranær mun það ráðast af framvindunni, þ.m.t. hugsanlegum ákvörðunum um stóriðjuframkvæmdir. Stóriðjuáform munu hins vegar ekki hafa áhrif á vaxtaákvarðanir Seðlabankans fyrr en ákvarðanir um að hrinda þeim í framkvæmd hafa  verið teknar og áhrif þeirra greind.

Áhrif þessarar vaxtalækkunar á hagkerfið ráðast að verulegu leyti af viðbrögðum langtímavaxta á skuldabréfamarkaði og hjá lánastofnunum enda hafa þeir meiri áhrif á einkaneyslu og fjárfestingu en skammtímavextir.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.

Nr. 43/2002
12. desember 2002

Til baka