logo-for-printing

05. desember 2002

Greiðslujöfnuður við útlönd á fyrstu níu mánuðum 2002

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var 2,6 milljarða króna afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 36 milljarða króna halla á sama tíma í fyrra. Á föstu gengi (viðskiptavegin gengisvísitala var 0,4% hærri janúar-september 2002 en á sama tímabili í fyrra) batnaði viðskiptajöfnuðurinn um rúmlega 38 milljarða króna frá fyrra ári. Á þriðja ársfjórðungi var afgangurinn 4,1 milljarður króna samanborið við 6,7 milljarða króna halla á sama fjórðungi í fyrra. Útflutningur vöru og þjónustu jókst á fyrstu níu mánuðum ársins um 6,4% frá fyrra ári en innflutningur minnkaði um 5,2%, hvort tveggja reiknað á föstu gengi. Hallinn á þáttatekjum (laun, vextir og arður af fjárfestingu) nam 12,5 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Hann minnkaði mikið frá fyrra ári vegna vaxtalækkana á erlendum lánamörkuðum og aukinna tekna af erlendum fjárfestingum. Rekstrarframlög til landsins voru 1,6 milljörðum króna meiri en framlög til útlanda.

Hreint fjárútstreymi mældist 2,6 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Fjárfestingar innlendra aðila erlendis hafa verið miklar á þessu ári. Bein fjárfesting nam 6,5 milljörðum króna, erlend verðbréfakaup námu 18,3 milljörðum króna og gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 17,9 milljarða króna. Aðrar fjárfestingar, svo sem viðskiptakröfur, innstæður og þó einkum lán innlendra banka til erlendra aðila jukust mikið og námu 28,6 milljörðum króna. Á móti þessu fjárútstreymi standa erlendar lántökur í formi skuldabréfa og erlendra bankalána að fjárhæð 69 milljarðar króna. Skuldabréfin voru aðallega gefin út á erlendum mörkuðum en erlendir aðilar hafa í auknum mæli keypt skuldabréf sem útgefin eru hér á landi. Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst mikið á fyrstu níu mánuðum ársins eins og áður segir og nam hann 49,8 milljörðum króna í lok september sl. Stækkun hans skýrist þó að öllu leyti af lánahreyfingum ríkissjóðs sem juku forðann tímabundið í september.

Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna

Júlí-

september

Janúar-

september

2001

2002

2001

2002

Viðskiptajöfnuður

-6,7

4,1

-36,0

2,6

   Útflutningur vöru og þjónustu

84,3

80,3

220,9

235,8

   Innflutningur vöru og þjónustu

-84,1

-75,4

-233,8

-222,3

   Þáttatekjur og framlög, nettó

-6,9

-0,8

-23,1

-10,9

Fjármagnsjöfnuður

18,4

-20,6

23,8

-2,6

    Hreyfingar án forða

20,5

-6,3

20,8

15,3

    Gjaldeyrisforði (- aukning)

-2,2

-14,3

2,6

-17,9

Skekkjur og vantalið, nettó

-11,7

16,5

12,2

0,0

 

Erlendar skuldir þjóðarinnar námu 556,5 milljörðum króna umfram erlendar eignir í lok september sl. Hrein skuldastaða lækkaði um 31 milljarð króna á fyrstu níu mánuðum ársins vegna gengishækkunar krónunnar og afgangs á viðskiptum við útlönd. Meðfylgjandi yfirlit sýna ítarlegri upplýsingar um greiðslujöfnuðinn við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins.

Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

42/2002
5. desember 2002

Talnaefni um greiðslujöfnuð á þriðja ársfjórðungi (pdf-skjal)

Til baka