logo-for-printing

18. nóvember 2002

Standard & Poor's breytir mati sínu á horfum á lánshæfi Íslands

Matsfyrirtækið Standard & Poor's, skýrði frá því fyrir síðustu helgi að það hefði breytt horfum á lánshæfi Íslands úr neikvæðum í stöðugar.  Um leið staðfesti fyrirtækið lánshæfiseinkunnir Íslands, bæði einkunnina AA+/A-1+ fyrir lán í íslenskum krónum og A+/A-1+ fyrir lán í erlendri mynt. Standard & Poor's sagði í frétt sinni 15. nóvember sl. breytinguna á horfunum endurspegla bætta ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins, árangur sem náðst hefði í sölu ríkisbankanna og áframhaldandi góða afkomu bankanna að afloknu skeiði sem einkennst hefði af útlánaþenslu.

Í frétt Standard & Poor's segir meðal annars að eftir nokkurra ára tímabil mikils vaxtar innlendrar eftirspurnar hafi viðskiptahalli þjóðarbúsins náð 10% af vergri landsframleiðslu á árinu 2000. Erlend lausafjárstaða versnaði einnig vegna fjármagnsstreymis úr landi til fjárfestinga erlendis. Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkaði í viðleitni við að verja gengi krónunnar áður en horfið var frá fastgengisstefnu í mars á síðasta ári. Ytri staða þjóðarbúsins hefur batnað verulega frá þeim tíma. Standard & Poor's reiknar með að jöfnuður verði í viðskiptum við útlönd bæði þetta ár og næsta, en búast megi við lítilsháttar halla á árinu 2004, en þá muni innflutningur aukast í takt við innlenda eftirspurn eftir mikinn samdrátt á árunum 2001 og 2002. Seðlabanki Íslands vinnur að því að efla gjaldeyrisstöðu sína til að bæta erlenda lausafjárstöðu.

Bankarnir, sem fjármögnuðu viðskiptahallann með erlendum lántökum fram að árinu 2001, komu ágætlega út úr aðlögun hagkerfisins eftir mikla útlánaþenslu. Fram til þessa hafa rekstrarvísbendingar verið jákvæðar og gæði útlána og styrkur bankastarfseminnar gefur til kynna að tekjur bankanna nægi vel til að mæta útlánatapi sem hugsanlega kynni enn að leiða af snarpri hjöðnun hagvaxtar á árinu 2002. Gert er ráð fyrir að hlutfall hreinna erlendra skulda og gjaldeyristekna þjóðarbúsins nái jafnvægi við um 100% af erlendum tekjum þjóðarbúsins í náinni framtíð. Það hlutfall fór hæst í 125% á árinu 2000. Niðurstöður úr rekstri bankanna á fyrstu níu mánuðum ársins benda til góðrar afkomu sem dregur úr líkum á að til fjárskuldbindinga komi af hálfu hins opinbera vegna þeirra.

Ríkisstjórnin hefur náð góðum árangri við sölu á hlut sínum í ríkisbönkunum. Í október samdi einkavæðingarnefnd við íslenska fjárfesta um sölu á 45,8% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum fyrir 12,3 milljarða íslenskra króna (138 milljónir Bandaríkjadala) eða sem svarar 1,5% af áætlaðri landsframleiðslu á árinu 2003. Búist er við að ríkið selji með tímanum þau 2,5% sem eftir standa í Landsbankanum. Sölu á 46,6% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum gæti og verið lokið í lok þessa árs. Áætlað söluverð er 10-12 milljarðar króna. Með sölu á hlut sínum í Búnaðarbankanum ljúka stjórnvöld beinni þátttöku í viðskiptabankastarfsemi.

Vegna tekna af einkavæðingu mun hlutfall skulda ríkissjóðs lækka í 41% af landsframleiðslu á árinu 2003.  Skuldahlutfallið var 47% á árinu 2001 í kjölfar þess að krónan lækkaði verulega eftir að horfið var frá fastgengisstefnu. 

Mat fyrirtækisins um stöðugar horfur byggist á að meira jafnvægi ríkir nú í hagkerfinu. Sterk staða ríkisfjármála og mikill sveigjanleiki í hagkerfinu vega upp þrönga lausafjárstöðu sem þó fer batnandi. Að sögn fyrirtækisins gætu meiriháttar breytingar til hins verra á erlendri stöðu þjóðarbúsins eða vísbendingar um lakari stöðu fjármálageirans haft neikvæð áhrif á lánshæfismatið. Aftur á móti gæti enn betri staða ríkisfjármála eða bætt ytri staða þjóðarbúsins leitt til frekari hækkunar á lánshæfismatinu í framtíðinni. 

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs bankans í síma 569-9600.

 

Nr. 41/2002
18. nóvember 2002

Til baka