logo-for-printing

06. nóvember 2002

Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í október 2002

Meðfylgjandi eru upplýsingar úr efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í lok október 2002 og til samanburðar í lok desember 2001 ásamt breytingum í október 2002 og frá ársbyrjun 2002.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst af sérstökum ástæðum tímabundið í september og hefur það nú gengið til baka, en forðinn lækkaði í október um 13,2 milljarða og nam 36,5 milljörðum króna í lok mánaðarins (jafnvirði 419 milljóna Bandaríkjadala á gengi í mánaðarlok). Þessar breytingar má rekja til lánahreyfinga ríkissjóðs. Erlend skammtímalán bankans lækkuðu um 4,5 milljarða króna í mánuðinum og námu 13,7 milljörðum króna í lok hans.

Seðlabankinn keypti gjaldeyri á innlendum millibankamarkaði fyrir 1,2 milljarða króna, og er það er í samræmi við áætlun hans um aðgerðir til að styrkja gjaldeyrisstöðu sína sem kynnt var í fréttatilkynningu bankans nr. 28/2002. Gengi íslensku krónunnar veiktist í mánuðinum um 0,8%.

Markaðsskráð verðbréf í eigu bankans námu 5,1 milljarði króna í októberlok miðað við markaðsverð. Þar af námu markaðsskráð verðbréf ríkissjóðs 1,8 milljörðum króna.

Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir jukust um 3,1 milljarð króna í október og námu 77,9 milljörðum króna í lok mánaðarins. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir jukust um 2,0 milljarða króna í mánuðinum og námu 8,0 milljörðum króna í mánaðarlok.

Nettókröfur bankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir jukust um 7,4 milljarða króna í október og námu nettóinnstæður ríkissjóðs um 31 milljarði króna í lok mánaðarins.

Grunnfé bankans jókst í október um 4,5 milljarða króna og nam það 37,8 milljörðum króna í mánaðarlok.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla Árnadóttir aðalbókari í síma 569-9600.

Nr. 39/2002
6. nóvember 2002

Fréttin í heild með töflu um helstu liði

Til baka