logo-for-printing

21. október 2002

Moody's hækkar einkunn á erlendum lánum Íslands í Aaa

Matsfyrirtækið Moody's Investors Service hefur hækkað lánshæfismat skuldabréfa og bankainnstæðna í erlendri mynt  vegna skuldbindinga Íslands í Aaa sem er hæsta einkunn sem gefin er. Ísland hafði áður einkunnina Aa3. Jafnframt hefur einkunn Ástralíu og Nýja-Sjálands verið hækkuð úr Aa2 í Aaa. Breytingin er niðurstaða af  endurmati á lánshæfi ríkjanna í framhaldi af breytingu á aðferðafræði hjá Moody's sem gerð var árið 2001. Skuldabréf í erlendri mynt sem eru gefin út eða með ábyrgð  stjórnvalda á Íslandi, Nýja-Sjálandi og í Ástralíu fá nú sama mat og gildir um innlendar skuldbindingar ríkjanna, það er Aaa.

Lánshæfiseinkunn ríkis setur þak á lánshæfi innlendra aðila vegna skuldbindinga þeirra í erlendri mynt. Með henni er lagt mat á  hversu mikil hætta sé á að ríkisvaldið stöðvi greiðslur vegna afborgana á erlendum skuldum til að koma í veg fyrir að gjaldeyrisvarasjóðir þverri.

Í frétt Moody's segir að fyrirtækið telji sífellt minnkandi líkur á að stjórnvöld í þróuðum iðnríkjum, eins og þeim sem fengu lánshæfismatið hækkað í dag, myndu beita greiðslustöðvunum sem stjórntæki. Stjórnarhættir í ríkjunum á síðastliðnum áratug hefðu ennfremur sýnt fram á að þverrandi líkur væru á að ríkissjóðir þar tækju á sig alla ábyrgð vegna  erlendra skuldbindinga annarra opinberra aðila eða einkaaðila.

Ennfremur sagði Moody's að vegna þess að í ríkjunum væri fylgt sveigjanlegri gengisstefnu væru minni líkur á að þau yrðu fyrir barðinu á gjaldeyriskreppum sem gætu verið fylgifiskar fastgengisstefnu.

Moody's sagði í fréttinni að ekki væri hægt að rekja ákvörðun um hærra mat til einstakra atburða í ríkjunum þremur. Frekar væri hér um að ræða áfanga í þróun sem gætti á lánshæfismati fyrirtækisins á ríkjum vegna erlendra skuldbindinga.

Á síðasta ári breytti fyrirtækið aðferðafræði sinni við lánshæfismat. Nú getur lánshæfismat á erlendum skuldbindingum aðila eins og banka, veitustofnana, símafélaga eða annarra slíkra aðila farið upp fyrir lánshæfismat ríkisins þar sem þessir aðilar hafa aðsetur. Þessi breyting endurspeglar það mat Moody's að flestar ríkisstjórnir átti sig nú á því hversu alvarlegar afleiðingar það gæti haft fyrir hagkerfið ef mikilvægum fyrirtækjum sem þessum væri meinað að greiða af skuldum í erlendri mynt. Hækkun lánshæfismats  ríkjanna nú gefur til kynna það mat Moody's að mjög ólíklegt sé að viðkomandi ríkisstjórnir myndu stöðva endurgreiðslur á erlendum lánum.

Matsfyrirtækið telur að þrátt fyrir að í þróuðum iðnríkjum hafi sú áhætta sem lánshæfiseinkunn ríkjanna fyrir erlendar skuldbindingar átti að mæla nánast horfið sé slík áhætta sannarlega enn til staðar í öðrum heimshlutum. Því muni lánshæfiseinkunnir enn verða gefnar út fyrir öll ríki í því skyni að meta slíka áhættu.

Fréttatilkynningar eru væntanlegar um það hvaða áhrif þessar breytingar hafa á lánshæfismat annarra skuldunauta í þessum löndum.

Frekari upplýsingar um lánshæfiseinkunnir ríkja vegna erlendra skuldbindinga fást á vefsíðu Moody's Investor Service: www. Moodys.com

Nánari upplýsingar að öðru leyti veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

Frétt nr. 37/2002
21. október 2002

Til baka