logo-for-printing

15. október 2002

Seðlabanki Íslands lækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans í endurhverfum viðskiptum við lánastofnanir um 0,3 prósentur í 6,8% í næsta uppboði sem haldið verður 22. október n.k.  Aðrir vextir Seðlabankans verða lækkaðir um 0,3 prósentur 21. október n.k.

Seðlabanki Íslands tilkynnti síðast um lækkun vaxta sinna um 0,5 prósentur 18. september sl. Rökin fyrir þeirri ákvörðun voru minnkandi verðbólga í samræmi við verðbólguspá bankans sem birt var í byrjun ágúst og vísbendingar um vaxandi slaka í hagkerfinu. Bankinn lýsti því þá yfir að ef nýjar upplýsingar staðfestu áframhaldandi hjöðnun verðbólgu í átt að verðbólgumarkmiði hans og aukinn slaka í hagkerfinu myndi bankinn lækka vexti frekar. Þrennt bendir einkum til að þetta sé að ganga eftir. Í fyrsta lagi stóðst verðbólguspá bankans fyrir þriðja ársfjórðung nær alveg, jafnvel þótt vísitala neysluverðs hafi hækkað í október nokkuð umfram væntingar markaðsaðila. Þetta var annar ársfjórðungurinn í röð sem verðbólguspá bankans rættist nánast að fullu. Í öðru lagi bendir atvinnuleysi í september til þess að slaki á vinnumarkaði vaxi enn. Atvinnuleysi stóð í stað frá ágúst til september en jókst í u.þ.b. 3% ef tekið er tillit til árstíðasveiflu. Í þriðja lagi eru samkvæmt nýlegum þjóðhagsspám horfur á minni hagvexti á árinu 2003 en spáð var á miðju ári 2002 og er þá ekki tekið tillit til hugsanlegra stóriðjuframkvæmda.

Seðlabanki Íslands vinnur nú að gerð nýrrar verðbólguspár ásamt mati á ástandi og horfum í þjóðarbúskapnum. Hvort tveggja verður birt í ársfjórðungsriti bankans Peningamálum  6. nóvember n.k. og verður lagt til grundvallar stefnunni í peningamálum á komandi mánuðum.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.

 

Nr. 36/2002
15. október 2002

Til baka