logo-for-printing

30. september 2002

Seðlabanki Íslands innkallar aura

Forsætisráðherra hefur að tillögu Seðlabanka Íslands undirritað tvær reglugerðir sem varða greiðslumiðlun og gjaldmiðil Íslands. Annars vegar er um að ræða reglugerð um að heildarfjárhæð sérhverrar kröfu eða reiknings skuli greind og greidd með heilli krónu og hins vegar reglugerð um innköllun þriggja myntstærða (aura). Samkvæmt fyrri reglugerðinni verður engum skylt að inna af hendi greiðslu í aurum frá og með 1. október 2003. Eftir sem áður verður heimilt að nota brot úr krónu í útreikningi verðs, en lægri fjárhæð en 0,5 krónur skal þá sleppt og 0,5 krónur eða hærri fjárhæð hækkuð í eina krónu. Samkvæmt síðari reglugerðinni skal fimm, tíu og fimmtíu aura mynt innkölluð. Bankar og sparisjóðir verða skyldugir til að taka við aurum og láta í staðinn krónur fram til 1. október 2003. Til þess tíma verða aurar áfram lögmætur gjaldmiðill, en ekki lengur. Seðlabanki Íslands mun þó innleysa aura til 1. október 2004.

Myntheitið eyrir var tekið upp í myntkerfi danska ríkisins árið 1873 er verðreikningur var færður úr tylftarkerfi í tugakerfi. Árið 1922 var slegin fyrsta auramynt sem íslensk stjórnvöld gáfu út. Auramynt var síðan innkölluð 1974, og lauk þeirri innköllun ári síðar. Við gjaldmiðilsbreytingu í ársbyrjun 1981, er verðgildi íslenskrar krónu var hundraðfaldað, var auramynt gefin út að nýju. Slegin var fimm, tíu og fimmtíu aura mynt með ártalinu 1981 og fimmtíu aurar aftur með ártalinu 1986.

Árið 1985 hætti Seðlabanki Íslands að setja fimm aura mynt í umferð, og fimm árum seinna var hætt að dreifa tíu og fimmtíu aura mynt frá bankanum. Eftir gjaldmiðilsbreytinguna 1981 hefur verið slegin auramynt sem nemur um það bil 11,8 milljónum króna. Af þeirri fjárhæð eru nú um 10 milljónir króna í umferð utan Seðlabankans eða um 64 milljónir stykki. Lítið hefur komið inn af aurum í fjárhirslur Seðlabankans á síðari árum. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs komu inn aðeins 46 þúsund stykki eða sem svarar um 7.500 krónum.

Með lögum nr. 36 frá 27. apríl 1998 um breytingu á lögum um gjaldmiðil Íslands (nr. 22/1968) veitti Alþingi ráðherra heimild til að ákveða að fjárhæð sérhverrar kröfu eða reiknings skyldi greind og greidd með heilli krónu. Með fyrri reglugerðinni sem forsætisráðherra undirritaði 19. september sl. hefur þessi heimild verið nýtt.

Reglugerðirnar verða birtar í Stjórnartíðindum og auglýsing um innköllun birt í Lögbirtingablaði og dagblöðum. Efni er varðar innköllunina má einnig finna á vef Seðlabankans.

Nr. 33/2002
30. september 2002

 

Til baka